Föroya Sparikassi, stærsti stofnfjáreigandinn í SPRON, skilaði methagnaði á síðasta ári eða 1,3 milljörðum króna. Hagnaður fyrir skatta jókst um 47 prósent. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var um 12,8 prósent.
"Vaxtamunurinn er lítill og samkeppnin á færeyskum verðbréfamarkaði er hörð. Því getum við ekki verið annað en ánægð með að Sparikassinn skili methagnaði," segir Marner Jacobsen, forstjóri bankans.
Eignir bankans voru um 90 milljarðar króna í árslok og hækkuðu um þriðjung milli ára. Eigið fé var um 9,6 milljarðar króna.
Þriðjungur af hagnaði bankans kemur erlendis frá en hann hefur vaxið í Danmörku með kaupum á Eik Bank sem áður var Kaupþing í Danmörku. Bankinn stefnir á skráningu í Kauphöll Íslands á næsta ári.