Hlýindatímabilið er búið í bili og hitatölur eru aftur farnar að nálgast meðallag. Hiti var yfir meðallagi á Íslandi 31 mánuð í röð og árið 2003 var eitt hlýjasta ár sem mælst hefur hér á landi síðan um 1940. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að svo virðist sem síðasta hlýjindatímabili hafi lokið nú í vor. Þá hafði hiti verið yfir meðallagi í 31 mánuð í röð eða frá því síðla vetrar 2002. Í vor hafði hafís norðan við landið haft áhrif á meðalhita en maímánuður hafi verið nokkuð undir meðallagi. Einar segir að sumarmánuðirnir júní, júlí og ágúst hafi verið í meðallagi en september og október hafi verið vel undir meðallagi. Það sé sterk vísbending um að umræddu hlýindatímabili séu lokið og nú taki við annað ástand sem geti varað í nokkra mánuði eða ár. Árið 2003 var eitt hlýjasta ár sem mælst hefur á Íslandi en þá jafnaðist hitinn á við þær hitatölur sem mældust á árunum 1939 til 1941. |
Innlent