Sport

Leiðrétting á frétt um lyftingar

Vísi hefur borist leiðrétting vegna fréttar sem birtist fyrr í kvöld um árangur Ásbjörns Ólafssonar  á HM unglinga um helgina, þegar hann setti meðal annars heimsmet í bekkpressu. Greint var frá því að þetta hefði verið í annað sinn sem Íslendingur setur heimsmet í kraftlyftingum, en það hefur þó gerst oftar. Rétt var að Skúli Óskarsson setti heimsmet í opnum flokki árið 1980, þegar hann lyfti 315,5 kílóum í réttstöðulyftu í 75 kg flokki, sem er met sem verður lengi í minnum haft hérlendis. Fleiri íslenskir kraftlyftingamenn hafa þó náð að setja heimsmet, en það eru þeir Jóhannes Hjálmarsson frá Akureyri, sem setti nokkur heimsmet í flokki öldunga snemma á níunda áratugnum og þá setti Torfi Ólafsson einnig nokkur heimsmet í unglingaflokki á árunum 1985-86. Þetta munu allt vera met sett á vegum Alþjóða Kraftlyftingasambandsins, en auk þessara meta má svo til gamans geta að Séra Gunnar Sigurjónsson hefur einnig fengið nafnbótina sterkasti prestur í heimi samkvæmt heimsmetabók Guinnes með mestri samanlagðri þyngd í kraftlyftingum, svo að ljóst er að ekki má vanmeta afrek sterkra Íslendinga í gegn um tíðina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×