Innlent

Samson bað um fund

Samson-hópurinn bað um fund með Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, til að ræða söluna á Búnaðarbankanum og Landsbankanum þegar hún var í bígerð. Þetta upplýsti Valgerður í viðtali á Talstöðinni í Hádegisútvarpinu í gær. "Svo var endurtekið einhvers staðar viðtal við Björgólf Thor þar sem hann segir að Samson væri bara í þessu á viðskiptalegum forsendum en aðrir hefðu verið í þessu á pólitískum forsendum. Af hverju voru þeir að biðja um fund með mér ef ekki til að koma einhverju á framfæri við mig," sagði hún. Algengt er að ráðherrar séu beðnir um fundi á borð við þann sem Samson óskaði eftir og sagði Valgerður ráðherra yfirleitt reyna að verða við slíkum beiðnum. Hún kvaðst þó telja að ýmislegt hefði verið viðhaft við söluna á ríkisbönkunum sem hefði mátt standa betur að. "Fyrirtækin sem áttu í viðræðum við eigandann á þessum tíma fundu öll að því að ferlið hefði ekki verið nægilega skýrt og þess vegna er staðið öðruvísi að sölu Símans núna," sagði hún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×