
Sport
Þrír leikir gegn Pólverjum í mars

Íslenska landsliðið í handbolta mun spila þrjá vináttuleiki gegn Pólverjum hér á Íslandi í lok mars og verða það fyrstu leikir íslenska liðsins undir stjórn Viggós Sigurðssonar á Íslandi. Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að það eina sem gæti komið í veg fyrir þessa leiki væri að liðin tvö myndu lenda saman í umspili um sæti á Evrópumótinu í Sviss en dregið er 22. febrúar eins og fram kemur annars staðar á síðunni. Pólverjar eru með öflugt landslið þar sem Karol Bielecki og Grzegorz Tkaczyk, félagar Arnórs Atlasonar og Sigfúsar Sigurðssonar hjá Magdeburg, eru aðalmennirnir.