
Sport
Bjartsýnn fyrir mótið

Dagur Sigurðsson landsliðsfyrirliði hefur fengið vænan skerf af gagnrýni eftir síðustu mót og því er nokkur pressa á honum fyrir þetta mót. Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari hefur tröllatrú á Degi og ætlast til þess að hann skili lykilhlutverki í þessu móti. Dagur var brattur þegar Fréttablaðið hitti hann eftir æfingu í Túnis í gær. "Þetta leggst allt ágætlega í mig og höllin fín þótt hún sé svolítið skrýtin," sagði Dagur en El Menzah-íþróttahöllinn er hringlaga og völlurinn er eins og gryfja fyrir neðan áhorfendastúkuna. Alls tekur höllin 3500 í sæti. "Við byrjum mótið á 4 stiga leik og það skiptir miklu máli upp á sjálfstraust og annað að vinna þann leik," sagði Dagur og bætti við að það kæmi mikill ferskleiki með nýju mönnunum í hópnum. "Það er alltaf fín stemning í landsliðshópnum en það koma ferskir vindar með þessum strákum. Þeir eru margir hverjir á svipuðum aldri og rífa svolítið upp fíflaganginn sem er bara jákvætt. Ég er mjög bjartsýnn fyrir þetta mót því við erum vel undirbúnir og einbeittir," sagði Dagur Sigurðsson.