Rýma þurfti nítján hús í Bolungarvík í gær en fyrir var búið að rýma sjö hús í bænum og hafa alls 92 þurft að yfirgefa heimili sín. Flestir leituðu á náðir vina og ættingja. Gylfi Þór Gíslason, varðstjóri í Bolungarvík, segir að athugað verði í dag hvort fólk fái að fara heim til sín. Eins verður athugað hvort Óshlíðin verði rudd í dag en hún hefur verði lokuð vegna óveðursins og snjóflóðahættu. Olgeir Hávarðarson, meðeigandi verslunar Bjarna Eiríkssonar, segir bæði mjólk og brauð uppurið í bænum, hann fékk síðast mjólk í verslunina á fimmtudaginn fyrir tæpri viku síðan. Fyrst eftir að mjólkin kláraðist á mánudag keypti fólk kaffirjóma, kókómjólk og g-mjólk en í gær kláruðust þær birgðir líka. Olgeir segir lítið eftir nema safa og gos sem ætti þó að duga í nokkra daga. Ari Hólmsteinsson, íbúi við Traðarland 18 í Bolungarvík, þurfti að fara að heiman með fjölskyldu sína vegna snjóflóðahættu á sunnudag. "Auðvitað fer maður um leið og það er einhver hætta, það er mín skoðun. Þó veit ég að einhverjir nágranna minna eru ekki sammála," segir Ari en hann er svo heppinn að systir hans býr í Bolungarvík. Hún er með aukaherbergi sem Ari, eiginkona hans og níu ára sonur þeirra hafa til afnota. Ari hefur ekki komist á vinnustað sinn frá áramótum en hann vinnur hjá Símanum á Ísafirði. "Ég þarf bara netsamband til að geta unnið og er búinn að koma mér upp vinnuaðstöðu á stofuborðinu hjá systur minni," segir Ari. Þegar hann fór að heiman ásamt fjölskyldu sinni tóku þau með sér svolítið af fötum og annað dót sem þau þurfa til daglegra nota. Hann segir veraldlegu munina ekki skipta máli, þá sé hægt að finna aftur eða bæta.