Lífið

Verstu kaupin: Keypti óætt Nunnunammi

"Bestu kaupin gerði ég árið 1988 þegar ég keypti kontrabassa af Jóni "bassa" Sigurðssyni," segir Tómas R. Einarsson, tónlistarmaður og tónskáld.

"Þó ég sé ekki alveg með ættfræði hljóðfærisins á hraðbergi veit ég að það kom frá Þýskalandi skömmu eftir stríð svo þessi kontrabassi var ekki alveg nýr þegar ég keypti hann. En hitt veit ég fyrir víst að eftir þessar sautján ára samvistir okkar er hann ennþá jafn góður og var þegar ég keypti hann. Hann hefur líka fylgt mér víða því ég hef tekið hann með mér til Taílands, Malasíu, Argentínu, Chile, Grænlands og víðar en nú er ég farinn að hlífa honum við langferðum og því sat hann heima þegar ég tók upp Havana-plötuna á Kúbu. Annars hefur hann fengið að óma á nær öllum mínum plötum frá þessu tímabili.

„Verstu kaupin gerði ég hins vegar á Sevilla á Spáni þó maður geri nú yfirleitt góð matarkaup þar í landi. En eitt sinn þegar ég var í sunnudagsgöngutúr með fjölskyldunni rak ég augun í nunnur sem voru að selja kökur og góðgæti við klaustur eitt þar í borg. Ég keypti þó nokkuð af þessu nunnunammi, sem leit afskaplega girnilega út. Hins vegar var þetta arfavondur matur og ég sem er frekar nýtinn maður reyndi að koma þessu ofan í gesti frekar en að henda þessu en alltaf fór það á þá leið að gesturinn skilaði þessu nunnunammi hálftuggnu á diskinn. Þá fór ég að reyna að koma þessu niður sjálfur svona eftir góðan málsverð en það fór á sömu lund. Ég held að þetta séu því langverstu kaupin sem ég hef gert."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.