Erlent

Sjítar vilja ekki hefnd

Leiðtogar sjíta í Írak biðja fylgismenn sína um að sýna stillingu og hefna ekki sjálfsmorðsárásanna sem urðu 60 manns að bana í gær. Talið er víst að sprengjunum tveimur, sem sprungu annars vegar í Najaf og hins vegar Karbala í gær, hafi verið komið fyrir af öfgasinnuðum súnní-múslimum. Árásirnar hafi verið til þess ætlaðar að hleypa illu blóði í sjíta-múslima og koma af stað víðtækum átökum nú í aðdraganda forsetakosninganna sem haldnar verða í Írak í lok janúar. Leiðtogar sjíta hafa hins vegar biðlað til landsmanna um að láta þetta ofbeldi ekki á sig fá og láta það ekki verða til þess að koma af stað borgarastyrjöld á milli þessara tveggja stærstu hópa Íraks. Sjítar eru í meirihluta í Írak og telja um 60% þjóðarinnar en súnní-múslimar hafa hins vegar haldið um stjórnartaumana í landinu í áratugi, enda er Saddam Hussein súnní. Saddam sjálfur hefur hvatt landa sína til að hunsa kosningarnar og flestir leiðtogar súnní-múslima eru því fylgjandi að fresta þeim eitthvað, að minnsta kosti þar til hægt verður að ná tökum á uppreisnarástandinu í landinu. Óttast er að sú upplausn sem ríkir verði til þess að fáir treysti sér á kjörstaði til að kjósa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×