Innlent

Ekkert í líkingu við flóðið 1996

Búist er við að hlaup í Skeiðará á Skeiðarársandi nái hámarki í dag. Í gær mátti sjá háa öskubólstra stíga upp frá Vatnajökli. Ekki er búist við jafn miklu hlaupi nú og fór yfir Skeiðarársand árið 1996. Þjóðveginum um Skeiðarársand var lokað klukkan hálf átta í gærkvöld en Reynir Gunnarsson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Hornafirði sagði í gær að vegurinn yrði opnaður aftur í birtingu í dag. Lögreglan var með vakt við veginn í nótt. Reynir sagði að engar skemmdir hefðu orðið á mannvirkjum í hlaupinu. Bjarni Kristinsson og Snorri Zophoníasson hafa verið við mælingar í Skeiðará á vegum Vatnamælinga Orkustofnunar. Þeir segja að vatnsmagn í ánni hafi tvöfaldast á sólarhring frá því á sunnudag. Þá hafi það verið 570 rúmmetrar á sekúndu. Á mánudag hafi það verið 1500 rúmmetrar og 2900 rúmmetrar á hádegi í gær. Í hamfaraflóðinu árið 1996 komst vatn í ánni í 20.000 rúmmetra þegar það náði hámarki. Hlaupið nú er því smávægilegt í samanburði við það. Snorri segir að hlaup hafi verið byrjað í ánni áður en gosið hófst. Miðað við vatnsmagnið í Grímsvötnum þá hefði hlaupinu átt að ljúka í gær. Vatnsmagn í Grímsvötnum hafi verið komið í 700 um helgina en verið komið niður í 170 gígalítra þegar gosið hófst. Vegna gossins hafi ís hins vegar bráðnað og aukið vatnsmagn undir jöklinum. Hlaupið eigi því enn eftir að vaxa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×