Menning

Segir starfsemina hættulega

Landlæknir hefur nú til umfjöllunar kvartanir sem borist hafa vegna bandarískra hjóna sem segjast lækna sjúkdóma og kenna Íslendingum að koma í veg fyrir orkuleka í sjálfum sér með því að bera á sér steina. Landlæknir segir starfsemina hættulega og varar sterklega við henni. Í fréttatímanum í gær voru Kane-hjónin heimsótt en þau kenna fólki að byggja upp orku í sjálfu sér. Námskeiðið kostar 20.000 krónur en hjónin selja einnig einkatíma á 6.000 krónur. Þá selja þau nokkurs konar orkuegg sem á að koma í veg fyrir orkutap, hvar sem menn eru staddir á hnettinum. Ef fólk á erfitt með að taka ákvarðanir í lífinu getur það hringt í hjónin og borið fram spurningu gegn 2.000 króna gjaldi. Tvær spurningar fást fyrir 3.000 krónur. Landlæknir segir starfsemina hættulega fjárplógsstarfsemi og hefur borist kvartanir vegna hennar. Eru þær frá áhyggjufullum ættingjum nemenda hjónanna sem kvarta undan miklum kostnaði við námskeiðin og að þarna sé verið að hafa fólk að fífli. Að sögn landlæknis hefur fólk jafnvel verið hvatt til að skilja við sína nánustu af Kane-hjónunum og hverfa til „hirðar“ þeirra. Hann segir loforðin ekki eiga sér neina stoð í raunveruleikanum, hvorki líffræðilega ná sálfræðilega. Ekki er hægt að banna starfsemi sem þessa en landlæknir varar þó sterklega við hættunni sem af þessu getur stafað og óskar eftir því að ná tali af fólkinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.