Erlent

Háttsettur Íraki myrtur

Þrír létust í sjálfsmorðsárásum í borginni Mósúl í Írak í morgun og háttsettur embættismaður var myrtur á heimili sínu í Bagdad. Árásum í Írak fer fjölgandi. Þrír létust og þrír særðust í sjálfsmorðssprengingu í Mósúl í morgun. Jeppi fullur af sprengjuefnum sprakk fyrir utan höfuðstöðvar Bandaríkjahers í borginni með þeim afleiðingum að árásarmaðurinn, kona og barn létust. Að minnsta kosti sjötíu hafa látist í árásum í Mósul síðustu mánuði en ekkert lát er á þeim eftir að Írakar tóku við stjórn í landinu. Háttsetur maður úr innanríkisráðuneyti Íraks var myrtur í Bagdad í morgun. Mussab al-Awadi var að koma út úr húsi sínu ásamt tveimur lífvörðum þegar byssumenn hófu skothríð og létust mennirnir samstundis. Ráðherrar og embættismenn í Írak óttast flestir um líf sitt, enda er það yfirlýst markmið vígamanna að gera árásir á alla þá sem þeir telja að séu að vinna með Bandaríkjastjórn. Hópur íslamskra skæruliða í Írak, sem heldur sjö erlendum borguurum í gíslingu, hefur framlengt frest sem þeir höfðu gefið samningamönnum. Lífi gíslanna, sem allir vinna fyrir kúveiskt fyrirtæki, verður því þyrmt um sinn. Tveir Pakistanar sitja hins vegar í haldi mannræningja. Hópurinn kallar sig „Her íslams í Írak“ og hefur hótað að drepa fangana vegna þess að Pakistan hefur hugleitt að senda hermenn til Íraks.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×