Körfubolti

Tim Duncan hættur í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Duncan.
Tim Duncan. Vísir/EPA
Tim Duncan hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Tim Duncan hélt upp á fertugsafmælið í apríl en hann var að klára sitt 19. tímabil með San Antonio Spurs.

Það var búist við því að Tim Duncan myndi leggja skóna á hilluna en það varð þó ekki endanlega ljóst fyrr en hann gaf út tilkynningu um það í dag.

Síðasti leikurinn hans Duncan á ferlinum var tap í leik sex á móti Oklahoma City Thunder 12. maí síðastliðinn. Hann var með 19 stig og 5 fráköst í lokaleiknum.

Tim Duncan varð fimm sinnum NBA-meistari með San Antonio Spurs og var fimmtán sinnum valinn í stjörnuleik deildarinnar.

Tim Duncan og Gregg Popovich, þjálfari San Antonio Spurs allan feril Duncan, unnu saman 1001 leik í NBA-deildinni sem er met. San Antonio vann aldrei undir 60 prósent leikja sinn á nítján tímabilum Tim Duncan með Spurs.

Duncan var valinn besti maður úrslitanna í þremur fyrstu titlum Spurs, 1999, 2003 og 2005 en hann var kominn í minna hlutverk á síðustu tímabilum sínum með liðinu.

San Antonio Spurs valdi  Tim Duncan númer eitt í nýliðavalinu 1997 og hann var kosinn nýliði ársins á sínu fyrsta tímabili. Hann varð meistari í fyrsta sinn á sínu öðru tímabili og síðasta titilinn vann hann á sínu sautjánda tímabili sumarið 2014.

Tim Duncan endar ferilinn með 19,0 stig, 10,8 fráköst, 3,0 stoðsendingar og 2,2 varin skot að meðaltali í leik. Hann er fjórtándi stigahæsti frá upphafi (26,496), sjötti í fráköstum (15,091) og fimmti í vörðum skotum (3,020).

Tim Duncan var frábær varnarmaður og var átta sinnum kosinn í besta varnarlið ársins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×