Fótbolti

Fyrrverandi fyrirliði Valencia: Neville verður ekki rekinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neville er í vandræðum.
Neville er í vandræðum. vísir/getty
Þrátt fyrir að hafa ekki enn fagnað sigri í spænsku úrvalsdeildinni verður Gary Neville ekki rekinn sem knattspyrnustjóri Valencia. Þetta segir Gaizka Mendieta, fyrrverandi fyrirliði liðsins.

Valencia tapaði 1-0 fyrir Real Betis í gær en þetta var níundi deildarleikur liðsins undir stjórn Neville sem tók við stjórastarfinu af Nuno Espirito Santo í desember.

Uppskeran úr þessum níu leikjum er heldur rýr, eða aðeins fimm stig. Þá tapaði Valencia 7-0 fyrir Barcelona í fyrri leik liðanna í undanúrslitum spænsku bikarkeppninnar á miðvikudaginn.

Þrátt fyrir þetta slaka gengi segir Mendieta að Neville verði ekki látinn taka pokann sinn, allavega ekki strax.

„Eins og ég sagði fyrir leikinn, þá held ég að hann verði ekki rekinn,“ sagði Mendieta í samtali við Sky Sports.

„Forseti félagsins og stjórnarformaðurinn hafa enn trú á Gary og telja að hann eigi að fá lengri tíma í starfi. Íþróttastjóri félagsins og stuðningsmennirnir eru ekki á sama máli.“

Mendieta, sem var fyrirliði Valencia þegar liðið komst tvö ár í röð í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í upphafi aldarinnar, segir að leikmenn Valencia verði líka að axla ábyrgð á slæmu gengi liðsins.

„Þetta snýst ekki bara um úrslitin, heldur einnig hvernig liðið er að spila. Það er ekki bara Gary að kenna, leikmennirnir hafa heldur ekki staðið sig,“ sagði Mendieta.

Valencia mætir Barcelona í seinni leik liðanna í undanúrslitum spænska bikarsins á miðvikudaginn. Á laugardaginn eiga lærisveinar Neville svo leik gegn Espanyol í deildinni.

Mendieta í leik gegn Manchester United árið 2001.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×