Körfubolti

Tinda­stóll vann Val í spennutrylli

Sindri Sverrisson skrifar
Valskonur urðu að játa sig sigraðar á Sauðárkróki í kvöld.
Valskonur urðu að játa sig sigraðar á Sauðárkróki í kvöld. vísir/Vilhelm

Tindastóll hóf nýja árið af sama krafti og liðið lauk því síðasta, í Bónus-deild kvenna í körfubolta, með því að vinna Valskonur í háspennuleik á Sauðárkróki í kvöld, 81-79.

Alejandra Martinez skoraði tvö síðustu stig leiksins af vítalínunni, 22 sekúndum fyrir leikslok, og tryggði Tindastóli sigurinn. Dagbjört Dögg Karlsdóttir hafði komið Val yfir, 79-77, tæpri mínútu fyrir leikslok en fleiri stig skoruðu gestirnir ekki og fóru tómhentir heim.

Tindastóll hafði unnið topplið Njarðvíkur í síðasta leik fyrir jólafríið og hefur nú unnið fimm leiki á leiktíðinni, alla á heimavelli sínum í Síkinu. Liðið jafnaði með þessu Stjörnuna að stigum í 7.-8. sæti en sex stig eru upp í næstu lið.

Marta Hermida var stigahæst Tindastóls með 26 stig í kvöld, Madison Sutton skoraði 21 og Oceane Kounkou 16.

Hjá Val var Reshawna Stone í sérflokki með 37 stig, 15 fráköst og sjö stoðsendingar, en Ásta Júlía Grímsdóttir kom næst með 16 stig og Dagbjört skoraði 12.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×