Umræðan

Öryggi Ís­lands hefur aldrei hvílt á al­þjóða­lögum einum saman

Hreinn Loftsson skrifar

Í lögfræðinni er gerður skýr greinarmunur á de lege ferenda annars vegar og de lege lata hins vegar. Hið fyrra lýsir því hvernig lögin ættu að vera, hið síðara hvernig þau eru í reynd. Þessi aðgreining er grundvallarregla í allri ábyrgri lögfræðilegri greiningu. Án hennar glatar rökræðan festu, skýrleika og trúverðugleika.

Sama aðgreining á fullt erindi í umræðu um utanríkis- og öryggismál þjóðarinnar. Raunar er hún þar enn mikilvægari, því þar getur ruglingur milli óskhyggju og veruleika haft afdrifaríkar afleiðingar.

Undanfarin misseri hefur orðið æ algengara að stefnu í utanríkis- og öryggismálum sé lýst með vísan í æskilegt ástand – de lege ferenda – sem þó er sett fram eins og hún hvíldi á lýsandi staðreyndum um raunveruleikann – de lege lata. Alþjóðalög, reglur og stofnanir eru kynntar sem undirstöður öryggis, fremur en markmið sem krefjast raunverulegs valds, framkvæmanleika og fælingarmáttar til að halda þeim uppi.

Enginn vafi leikur á því að alþjóðalög ættu að vera virt. Það er de lege ferenda. Enginn ábyrgur stjórnmálamaður eða fræðimaður efast um gildi reglubundins alþjóðakerfis. En sú staðreynd breytir ekki því að í reynd – de lege lata – hafa alþjóðalög aldrei verið sjálfvirk trygging fyrir öryggi smáríkja. Þau hafa alltaf verið háð vilja, valdi og bandalögum ríkja.

Þorskastríðin sýna með skýrum hætti að jafnvel smáríki byggja öryggi sitt og hagsmunagæslu í reynd á bandalögum og valdahlutföllum en ekki á lagareglum einum saman.

Reynslan af eigin utanríkisstefnu okkar Íslendinga staðfestir þetta enn frekar. Í þorskastríðunum á árunum 1958–1976 færði Ísland fiskveiðilögsögu sína einhliða langt út fyrir það sem almennt var talið samrýmast ríkjandi þjóðarétti hverju sinni. Bretland og önnur ríki töldu þessar aðgerðir ólögmætar og var formlegur lagagrundvöllur Íslands talinn veikur samkvæmt þáverandi reglum. Engu að síður náði Ísland fram sínum markmiðum. Ástæðan var ekki sú að alþjóðalög hefðu sjálfkrafa verndað stöðu landsins, heldur að Ísland studdist við raunverulegan fælingarmátt, pólitískan þrýsting og stöðu sína innan Atlantshafsbandalagsins. Þorskastríðin sýna með skýrum hætti að jafnvel smáríki byggja öryggi sitt og hagsmunagæslu í reynd á bandalögum og valdahlutföllum en ekki á lagareglum einum saman.

Smáríki eiga ekki allt undir því að reglur séu virtar

Alþjóðakerfið sem varð til eftir síðari heimsstyrjöld var ekki reist á lögum eingöngu. Það hvíldi jafnframt á valdajafnvægi, fælingarmætti og hernaðarlegum skuldbindingum bandamanna. Stórveldi fóru ítrekað á svig við reglur kerfisins, jafnvel á þeim tíma eftir síðari heimsstyrjöldina og fram yfir kalda stríðið sem nú er lýst sem gullöld stöðugleika. Samt hélt kerfið. Ekki vegna þess að reglurnar væru óbrjótanlegar, heldur vegna þess að raunverulegt vald, framkvæmanleiki og fælingarmáttur lá að baki þeirra.

Bæði Bandaríkin og Sovétríkin fóru ítrekað á svig við alþjóðalög á þessu tímabili, án þess að það kollvarpaði alþjóðakerfinu, einmitt vegna þess að stöðugleikinn hvíldi ekki á lögunum einum saman heldur á valdajafnvægi, fælingarmætti og bandalögum.

Þegar fullyrt er að smáríki eigi „allt“ undir því að stórveldi virði alþjóðalög, er verið að setja de lege ferenda fram sem de lege lata. Slík fullyrðing er skiljanleg sem siðferðileg áminning, en hún er röng sem greining á raunverulegum öryggisgrundvelli ríkja.

Smáríki eiga vissulega mikið undir því að reglur séu virtar – en þau eiga ekki allt undir því. Smáríki eiga einnig mikið undir bandalögum við önnur ríki, eigin trúverðugleika, fyrirsjáanlegri hegðun, vel ígrunduðum yfirlýsingum ráðamanna og skýrri stefnumörkun.

Öryggi landsins hefur aldrei hvílt á alþjóðalögum einum saman, heldur á blöndu af reglum, bandalögum og staðsetningu í alþjóðakerfinu.

Þessi ruglingur birtist skýrt þegar ótti við brot á alþjóðalögum er notaður sem rök fyrir róttækum stefnubreytingum, svo sem því að færa Ísland nær ESB. Þá er ekki lengur spurt hvað virkar í raun, heldur hvað ætti að virka í heimi hugsjóna þeirra sem þangað stefna.

Stefna er þá mótuð út frá de lege ferenda en sett fram sem nauðsyn sem leiðir af de lege lata. Ábyrg utanríkisstefna verður hins vegar að byggja á hinu síðara. Hún verður að taka mið af því hvernig heimurinn er, ekki aðeins hvernig við viljum að hann sé. Það felur ekki í sér að falla frá siðferðilegum viðmiðum eða gildum, heldur að verja þau með raunhæfum hætti.

Að móta stefnu sem stenst raunveruleikann

Fyrir Ísland felur þetta í sér skýra niðurstöðu. Öryggi landsins hefur aldrei hvílt á alþjóðalögum einum saman, heldur á blöndu af reglum, bandalögum og staðsetningu í alþjóðakerfinu.

Lega landsins, aðild að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamstarf við Bandaríkin og náið samstarf við vina- og nágrannaríki eru de lege lata undirstöður íslensks öryggis. Alþjóðalög og stofnanir eru mikilvæg markmið – de lege ferenda – sem við eigum að styðja, efla og verja, en ekki rugla saman við undirstöður sem þær eru ekki einar og sér.

Aðgreiningin úr lögfræðinni tilheyrir ekki veröld sem var. Hún er nauðsynlegt verkfæri í yfirstandandi umræðu um framtíð Íslands í ótryggum heimi. Þegar við hættum að greina á milli de lege ferenda og de lege lata, hættum við ekki aðeins að hugsa skýrt – við hættum að móta stefnu sem stenst raunveruleikann.


Höfundur er hæstaréttarlögmaður og á að baki fjölbreyttan feril í lögmennsku, atvinnulífi, stjórnsýslu og sem aðstoðarmaður ráðherra í nokkrum ráðuneytum.  Greinin birtist upphaflega á Facebook-síðu Hreins. 




Umræðan

Sjá meira


×