Körfubolti

Í skýjunum með sigurkörfu gegn liðinu sem honum fannst sparka sér í burtu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Durant sendi gamla félaginu sínu, Phoenix Suns, pillu eftir að hafa skorað sigurkörfu Houston Rockets gegn því í nótt.
Kevin Durant sendi gamla félaginu sínu, Phoenix Suns, pillu eftir að hafa skorað sigurkörfu Houston Rockets gegn því í nótt. getty/Alex Slitz

Kevin Durant var hinn kátasti eftir að hafa skorað sigurkörfu Houston Rockets gegn sínu gamla liði, Phoenix Suns, í NBA-deildinni í nótt. Honum fannst Phoenix fara illa með sig þegar hann yfirgaf félagið síðasta sumar.

Þegar 1,6 sekúndur voru eftir af leiknum í Houston í nótt setti Durant niður þriggja stiga skot og tryggði heimamönnum sigurinn, 100-97.

Durant var stigahæstur í liði Houston með 26 stig auk þess sem hann tók tíu fráköst.

Durant segir að sigurkarfan hafi skipt hann meira máli en ella í ljósi þess að leikurinn var gegn Phoenix, félaginu sem hann lék með áður en hann gekk í raðir Houston í sumar.

„Alveg klárlega. Þetta var staður sem mig langaði ekki að yfirgefa. Þetta var í fyrsta sinn - ég vil ekki hljóma of dramatískur en ég mun gera það - sem mér fannst mér vera sparkað í burtu,“ sagði Durant.

„Það var gott að spila gegn liði sem sparkaði þér öfugum út og gerði þig að blóraböggli fyrir öllum vandamálum þess. Það var sárt því ég gaf allt sem ég átti til Suns, Phoenix-svæðisins og Arizona almennt. En svona er bara leikurinn. Þegar þú spilar gegn gamla liðinu þínu hefurðu eitthvað að sanna.“

Durant lék í tvö og hálft tímabil með Phoenix en á þeim tíma komst liðið aldrei lengra en í 1. umferð úrslitakeppninnar.

Í sumar var Durant skipt til Houston í staðinn fyrir Jalen Green og Dillon Brooks.

Á þessu tímabili er hinn 37 ára Durant með 25,7 stig, 5,0 fráköst og 4,6 stoðsendingar að meðaltali í leik. Houston er í 4. sæti Vesturdeildarinnar en Phoenix í því sjöunda.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×