Körfubolti

Tryggvi allt í öllu á síðustu mínútunni í spennusigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlinason var mikilvægur í flottum útisigri í kvöld.
Íslenski landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlinason var mikilvægur í flottum útisigri í kvöld. Getty/Dragana Stjepanovic

Íslenski landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlinason var í aðalhlutverki á æsispennandi lokamínútum þegar Bilbao sótti sigur til Katalóníu.

Bilbao vann þá fjögurra stiga útsigur á Basquet Girona, 93-89. Tryggvi skoraði bæði körfu og gaf stoðsendinguna þegar Bilbao landaði sigri á lokamínútunni.

Tryggvi kom Bilbao yfir í 89-88 og átti svo stoðsendinguna þegar Martin Krampelj kom liðinu í 91-89. Justin Jaworski skoraði síðan tvö síðustu stigin á vítalínunni.

Tryggvi endaði leikinn með sjö stig, sex fráköst, þrjár stoðsendingar, þrjú varin skot og tvo stolna bolta. Hann hitti úr báðum skotum sínum og svo úr þremur af fimm vítaskotum.

Eftir skell í fyrsta leik ársins var þessi sigur kærkominn fyrir Tryggva og félaga.

Liðið var sex stigum undir í hálfleik, 48-42, en vann sig inn í leikinn og landaði síðan sigri á spennuþrungnum lokamínútum.

Eftir þennan sigur þá er Bilbao í ellefta sæti spænsku deildarinnar með sex stig og átta töp í fyrstu fjórtán leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×