Lífið

Eld­gosið sem lýsti upp nætur­himinninn og lamaði Evrópu

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Eldgos í Eyjafjallajökli í apríl 2010. Eldingar myndast inni í þéttum öskumökki sem rís upp frá gígnum.
Eldgos í Eyjafjallajökli í apríl 2010. Eldingar myndast inni í þéttum öskumökki sem rís upp frá gígnum. Vísir/Vilhelm

Óhætt er að fullyrða að enginn einn atburður í sögunni hafi gert garð Íslands eins og frægan og eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Öskugosið í toppgígnum ógnaði sveitabyggðinni við rætur fjallsins og raskaði flugumferð í Evrópu vikum saman. En gosið var jafnframt mikið sjónarspil, eins og sést á meðfylgjandi myndum sem teknar voru af Vilhelm Gunnarssyni, ljósmyndara Vísis, nokkrum dögum eftir að sprengigos hófst undir jökli í Eyjafjallajökli sjálfum.

„Ég ákvað einu sinni sem oftar að renna austur eftir vaktina og sjá hvað væri að gerast í gosinu. Þegar það fór að dimma þá fór að bera á eldingunum og úr varð myndrænasta kvöldið í Eyjafjalla og Fimmvörðuhálsgosunum. Það var soldið happdrætti að ná myndum af eldingunum enda birtast þær ekki allveg eftir pöntun,“ rifjar Vilhelm upp.

Gosið hófst 20. mars með kvikurennsli á Fimmvörðuhálsi, austan við jökulinn. Það gos var tiltölulega lítið og olli takmörkuðum raski. Að morgni 14. apríl breyttist staðan hins vegar verulega þegar sprengigos hófst undir jökli Eyjafjallajökuls. Kvikan komst í snertingu við jökulís, sem leiddi til mikillar öskumyndunar og öflugrar gosvirkni.

Goseldingar lýsa upp skýið og gefa til kynna mikla öskulosun.Vísir/Vilhelm

 Gosmökkurinn náði allt að átta til tíu kílómetra hæð og fíngerð aska barst hratt með vindum til Evrópu.

Þegar kvika komst í snertingu við ís jókst sprengivirkni gossins verulega.Vísir/Vilhelm

Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Vegna hættu fyrir flugvélar var stórum hluta evrópska loftrýmisins lokað tímabundið. Tugþúsundir fluga féllu niður og milljónir farþega urðu strandaglópar víða um álfuna. 

Askan rís hátt í lofthjúpinn og berst með vindum yfir stór landsvæði. Gosmökkurinn hafði veruleg áhrif á flugumferð í Evrópu.Vísir/Vilhelm

Á Íslandi sjálfu varð askufall á Suðurlandi, einkum í nágrenni gossins. Búfé þurfti að flytja, landbúnaður raskaðist og íbúar bjuggu við óvissu um heilsufarsleg áhrif öskufallsins. 

Elding myndast innan í öskuskýinu. Slík fyrirbæri eru algeng í sprengigosum með mikilli rafhleðslu. Þessi mynd Vilhelms var valin Umhverfismynd ársins 2010.Vísir/Vilhelm

Samhliða þessu fylgdist almenningur náið með framvindunni, bæði vegna sjónræns umfangs gossins og þeirra fordæmalausu afleiðinga sem það hafði utan landsteinanna.

Jökulbrún Eyjafjallajökuls í forgrunni og gosmökkur með eldingum fyrir ofan. Myndir af þessu tagi vöktu mikla alþjóðlega athygli vorið 2010.Vísir/Vilhelm

Gosinu lauk formlega 22. maí 2010 eftir nær tveggja mánaða virkni. 

Eldingarnar undirstrika rafvirkni gossins.Vísir/Vilhelm

Eyjafjallajökull varð í kjölfarið táknrænn fyrir það hvernig tiltölulega lítið eldfjall getur haft veruleg áhrif á hnattrænt samfélag.


Tengdar fréttir

Leitin á Svínafellsjökli sem hefur enn ekki skilað árangri

Mikill harmleikur átti sér stað í ágústmánuði árið 2007 þegar tveir þýskir ferðamenn týndust á Svínafellsjökli. Í fimm daga stóðu yfir umfangsmiklar aðgerðir þar sem á þriðja hundrað björgunarsveitarmanna leituðu mannanna, en án árangurs. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, fylgdi björgunarsveitarmönnunum eftir á fjórða og fimmta degi leitarinnar, í stórbrotnu umhverfi Svínafellsjökuls.

Eldsvoðinn í Reykjavík sem líkt var við náttúruhamfarir

Seint í nóvember árið 2004 átti sér stað einhver mesti bruni sem orðið hafði á höfuðborgarsvæðinu í áratugi. Þá kviknaði í gríðarlegum dekkja- og spilliefnahaug á athafnasvæði förgunarfyrirtækisins Hringrásar við Sundahöfn. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, var á svæðinu þessa nótt og festi á filmu baráttu slökkviliðsmannanna við eldinn.

Skelfing greip um sig þegar björgunarbátnum hvolfdi

Aðfaranótt 19. desember 2006 strandaði flutningaskipið Wilson Muuga við Hvalsnes sunnan við Sandgerði. Skipið, sem var alls 5700 lestir, var að koma frá Grundartanga á leið til Murmansk eftir að hafa losað kvarts.

Hvorki síldarævintýri né gervigreind

Það mætti halda að myndin hér að ofan væri unnin af gervigreind en ekki tekin af ljósmyndara Fréttablaðsins og Vísis snemma árs 2013. Þá varð sá fordæmalausi atburður að ríflega 35 þúsund tonn af síld drápust í Kolgrafafirði. Ástæðan var súrefnisþurrð. Fullur fjörður af síld en alls enginn ævintýrabragur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.