Lífið

Sat uppi með sex kíló af kæstri skötu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Lítil eftirspurn verður eftir innfluttri skötu í Hollandi næstu árin.
Lítil eftirspurn verður eftir innfluttri skötu í Hollandi næstu árin. Aðsend

Anna Rakel Ólafsdóttir hélt vægast sagt veglega skötuveislu í Haag í Hollandi þar sem hún er búsett á Þorláksmessu. Hún hafði pantað sex hundruð grömm af skötu fyrir þá fáu fjölskyldumeðlimi sem bera sér skötu til munns en barst sex þúsund grömm.

Hún birti auglýsingu á vefvettvangi Íslendinga í Hollandi þar sem hún bauð upp á helling af kæstri skötu gefins, enda tókst fjölskyldunni ekki að klára sex kíló af kæstri skötu. 

Segja má hins vegar með sanni að jólaandinn hafi komið yfir lítið samfélag Íslendinga í Hollandi því Önnu tókst að koma helmingnum út. Enn sem áður situr hún uppi með tvö kíló af kæstri skötu í frystinum.

„Það er búið að segja mér að þetta dugi til næstu tíu ára,“ segir Anna og hlær.

Hún segist hafa pantað skötuna að heiman og að skatan hafi komið fagmannlega innpökkuð og frosin en vissulega í meira magni en hún hafði vænst.

„Það eru tveir eða þrír í fjölskyldunni sem eru til í að smakka. Rest lætur þetta algjörlega vera og sumir fara jafnvel út að borða á meðan til að komast undan lyktinni,“ segir hún.

Lyktin segir hún ekki það sterka að það ónáði nágranna en Hollendingar hafa líklega ekki sama áhuga á að krækja sér í ókeypis skötu og Íslendingarnir.

Ljóst er að það verða nóg af veglegum veislum til heiðurs Þorláki helga í Hollandi næstu árin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.