Lífið samstarf

Sjórinn er enn á sínum stað

Lestrarklefinn
Þórdís Dröfn Andrésdóttir hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir ljóðahandritið Síðasta sumar lífsins.
Þórdís Dröfn Andrésdóttir hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir ljóðahandritið Síðasta sumar lífsins.

Bók Þórdísar Drafnar Andrésdóttur er til umfjöllunar á menningarvefnum Lestrarklefinn. Sjöfn Asare segir þetta um bókina.

Þórdís Dröfn Andrésdóttir hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir ljóðahandritið Síðasta sumar lífsins sem var í framhaldinu gefið út hjá Benedikt.

Í bókinni fer ljóðmælandi yfir síðasta sumar lífsins, og er látið liggja á milli hluta hvaða merkingu þessi endalok hafa, hvort það er endalok ástarsambands, tímabils eða allrar veraldarinnar er eitthvað sem lesandi getur fundið með sjálfum sér.

Sjöfn Asare fjallar reglulega um bækur á menningarvefnum Lestrarklefinn.

Svona erum við

ströndin mín og ég

tættar því blint dýr vildi sjá sjóinn

(bls. 7)

Endalok eru jafn falleg og þau eru hræðileg

Í mínum lesheimi er heimurinn að enda. Ég finn yfirvofandi vána og endalok veraldarinnar umlykja fullkominn paradísarheim þar sem parið liggur í sínum síðustu faðmlögum. Við fáum lítið að vita um þetta par, kyn þeirra kemur aldrei fram, ekki nöfn þeirra eða útlit, aldur eða fyrri störf. Við vitum bara að þetta par eru tveir aðilar sem elskast og elska hvorn annan. Og það er meira en nóg. Titrandi viðkvæmnin í lýsingum höfundar á umhverfinu, hverfulleikanum og yfirvofandi vá lét mig fá gæsahúð um allan líkamann. Nú fæ ég ekki sérstaklega oft gæsahúð, nema það sé tiltölulega kalt, en hvernig orðin smjúga inn í sálina og fanga sammannlegan anda er einstakt og húðin mín vissi það áður en heilinn meðtók hversu merkileg lesningin var.

Nú mega sumir ætla að hér sé ýkt, en svo er ekki. Þessi dásamlega fallega og djúpa ljóðabók er strax komin í flokk með þeim betri sem ég hef lesið í lífi mínu. Það er ákveðinn hópur af bókum sem búa við hjarta mitt og festu sess sinn þar um leið og ég las þær fyrst. Mamma þarf að sofa, eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur, Howl eftir Allen Ginsberg, Don‘t Call Us Dead eftir Danez Smith, Einurð eftir Draumeyju Aradóttur og svo mætti áfram telja. Síðasta sumar lífsins hefur sömu áhrif á mig, þau að það að lesa hana er meira en bara að lesa, meira en bara að lesa góða bók eða virkilega góða bók, hún snertir ekki bara sálina mína heldur eitthvað djúpt í kjarnanum sem ég held að sé hugsanlega mennskan sjálf.

Lifandi ljóðsaga

Hvað get ég sagt meira? Ekki margt. Myndmálið er fallegt og sterkt, agnir af vísbendingum sem bjóða lesanda að feta sig áfram eftir textanum eru vel skipulagðar og þeim dreift um ljóðsöguna sem fléttar sig í einni heild um síðurnar. Brot bókarinnar er auk þessa gullfallegt, daufir litirnir ríma vel við lágstemmda fegurðina, máð myndin af sjó og himni undir fótsporum kuðunga og skelja fanga einsemdina en um leið samrunann við eitthvað annað og stærra og meira en ein manneskja, ein skel og eitt sandkorn geta nokkru sinni verið. Guð er til staðar í bókinni en hann er ekki þar sem þú býst við að finna hann. Hann liggur á milli orðanna, hann er gullfiskur, hann er eilífðin, hann er sæði í sjávarmálinu. Hann er lífið allt og lífið er að enda.

Umfjöllunina í heild sinni má lesa hér. Fleiri ritdóma er að finna á Lestrarklefinn.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.