Formúla 1

McLaren ætlar að nota heil­brigða skyn­semi í á­kvörðunum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þeir félagar hjá McLaren, Lando Norris og Oscar Piastri, leiða keppni ökumanna en ríkjandi heimsmeistari er skammt undan.
Þeir félagar hjá McLaren, Lando Norris og Oscar Piastri, leiða keppni ökumanna en ríkjandi heimsmeistari er skammt undan.

Forráðamenn McLaren segjast vera tilbúnir að nota Oscar Piastri til að hjálpa Lando Norris í titilbaráttunni í formúlu 1 ef kemur að því í Abú Dabí-kappakstrinum að Ástralinn geti ekki lengur unnið heimsmeistaratitilinn. Það er mikil spenna fyrir helgina enda geta þrír tryggt sér heimsmeistaratitilinn í síðustu keppni tímabilsins.

McLaren hefur fylgt þeirri stefnu að leyfa frjálsa samkeppni milli ökumanna sinna í ár, staðráðið í að gefa báðum besta mögulega tækifæri til að vinna sinn fyrsta titil.

En Norris hefur sextán stiga forskot á Piastri fyrir síðustu keppni tímabilsins á Yas Marina, með Max Verstappen úr Red Bull á milli þeirra, tólf stigum á eftir Bretanum.

„Svo lengi sem báðir ökumenn eiga möguleika á að vinna titilinn, þá er allt með hefðbundnum hætti og þeim er frjálst að keppa,“ sagði Zak Brown, forstjóri hjá McLaren-liðinu.

„Ef það kemur í ljós í keppninni að báðir geta það ekki, munum við gera það sem við getum til að tryggja að liðið vinni heimsmeistaratitil ökumanna,“ sagði Brown.

„Við munum nota heilbrigða skynsemi, við ætlum ekki að kasta heimsmeistaratitli ökumanna á glæ fyrir fimmta og sjötta sæti eða hvað sem er ef annar ökumannanna á ekki möguleika,“ sagði Brown.

Það eru ýmsar tölfræðilegar aðstæður þar sem Piastri gæti komið í veg fyrir að Verstappen tæki titilinn með því að gefa Norris sæti.

Líklegasta atburðarásin þar sem þetta gæti gerst er ef Verstappen er að vinna keppnina, Piastri er í einu af þremur efstu sætunum og Norris er í fjórða sæti.

Ef Verstappen vinnur þarf Norris að vera í þriðja sæti til að tryggja sér titilinn. Í þeim aðstæðum, eða öðrum álíka, er ljóst að McLaren myndi biðja Piastri um að gefa Norris sæti sitt.

Önnur atburðarás væri ef Norris væri í áttunda sæti, Verstappen í öðru og Piastri einhvers staðar á milli þeirra.

Brown sagðist vera viss um að Piastri myndi samþykkja beiðnina.

„Ökumenn okkar hafa alltaf farið eftir óskum liðsins, rétt eins og við förum eftir þeirra óskum,“ sagði Brown. „Þannig að ég efast ekki um að hvor ökumaður okkar sem er muni halda áfram að keppa eins og þeir hafa gert frábærlega í þágu liðsins,“ sagði Brown.

Á fimmtudaginn sagði Lando Norris að hann myndi ekki biðja um þetta sjálfur „því mér finnst það ekki endilega sanngjörn spurning,“ sagði Norris.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×