Lífið samstarf

Þegar vit­vél fær spurningu um nas­isma og allt fer í háa­loft

Forlagið
Haukur Már Helgason sendi nýlega frá sér skáldsöguna Staðreyndirnar.
Haukur Már Helgason sendi nýlega frá sér skáldsöguna Staðreyndirnar. Mynd/Gunnar Freyr Steinsson.

Nýlega kom út hjá Forlaginu nýjasta skáldsaga Hauks Más Helgasonar sem ber heitið Staðreyndirnar. Um er að ræða hárbeitta satíru um ólík tilbrigði við þögn, um uppgjöf andspænis voðaverkum, uppgjör sem aldrei fer fram og þolinmæði þeirra afla sem enn bíða þess í ofvæni að lýðræðis- og frelsisbylgju síðustu áttatíu ára ljúki. Skáldsaga um vélrænt vit, mannasiði og nasista.

Steini, aðalsögupersóna bókarinnar, er boðin staða hjá nýstofnaðri Upplýsingastofu eftir að framtíð hans er úti í stjórnmálum. Þar á hann að leiða þróun opinbers staðreyndagrunns, vitvélar sem á að gegna lykilhlutverki í baráttu stjórnvalda gegn upplýsingaóreiðu. Verkefnið lofar góðu þar til háskólanemi ber upp eldfima spurningu við vélina um áhrif nasisma á stjórnarfar á Íslandi.

Haukur Már Helgason er heimspekingur að mennt og hefur ritað, þýtt og ritstýrt ýmiss konar efni um heimspeki og pólitík, auk þess sem hann hefur starfað sem blaðamaður og skrifað og þýtt skáldskap. Áður hafa komið út þrjár skáldsögur eftir Hauk Má; Svavar Pétur og 20. Öldin (2006), Ó – um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru (2019) og Tugthúsið (2022).

Hvernig kviknaði hugmyndin að þessari skemmtilegu bók?

„Í bókinni fléttast saman tvær hugmyndir eða meginþræðir. Annar þeirra eru yfirstandandi átök við þetta sem er kallað upplýsingaóreiða, hinn er hvernig samfélag getur átt erfitt með að gera upp vissa þætti í eigin sögu og taka þá til skoðunar. Bókin fór að mótast þegar þessir tveir þræðir rákust hvor á annan. Saman rákust þeir loks á þennan nýja sögumann sem er jöfnum höndum alvitur og óáreiðanlegur, vitvélina sem á orðið svolítinn hluta af bókinni.“

Í bókinni tekur þú fyrir nokkur umdeild málefni sem hafa verið ofarlega í umræðunni síðustu ár, t.d. falsfréttir, slaufanir, gervigreind og pólítíska vinagreiða. Ertu að skjóta föstum skotum?

„Það væri áreiðanlega hægt að skjóta fastari skotum um öll þessi viðfangsefni með blaðagreinum og bloggfærslum. Skáldsaga er frekar hentug til að flækja hluti en einfalda þá, og getur verið forvitnileg aðferð til að rannsaka krísur, mótsagnir og bresti. Aðalpersóna er svona eins og guli kallinn í Google Maps, maður droppar honum inn í aðstæður og þá birtast þær allt í einu sem eitthvað annað en kort, verða vettvangur.“

Í bókinni er komið inn á uppgang nasismans á Íslandi fyrir seinni heimsstyrjöld. Er þetta eldfimt efni til að fjalla um árið 2025?

„Sumar hliðar viðfangsefnisins virðast að minnsta kosti enn hafa verið tiltölulega lítið rannsakaðar. Mér sýnist það meðal annars vera vegna gamalla ákvarðana stjórnvalda og meðferðar þeirra á gögnum. Hvort það er eldfimt 80 árum síðar veit ég ekki. Hugsanlega er það lærdómsríkt. Og kannski er það þó fyrst og fremst, eins og aðrir misbrestir, nothæfur efniviður í sögu.“

Hvað ertu helst að lesa þessa dagana?

„Þessa dagana les ég mikið af barnabókum og þá helst sömu bækurnar aftur og aftur. Upphaflega bókin um Paddington bangsa er frábær, bæði mál og mynd. Þá leynast miklir fjársjóðir í röðinni „Skemmtilegu smábarnabækurnar“. 

Þar á meðal er til dæmis Kanínan sem hvíslaði, eftir Margaret Wise, bandarísk barnaklassík frá 20. öld. Kanínan þarf að vekja býflugu sem festist í hálsinum á henni. Meinið er – og það er allt annað dýr sem útskýrir þetta fyrir kanínunni, greiðvikinn bjór eða otur – að býflugur eru svo litlar að þær heyra bara mjög lág hljóð. Kanínan gerir því ótal tilraunir til að framkalla minnsta mögulega hávaða með raddfærunum sínum. 

Af íslenskum barnabókum eru Snuðra og Tuðra eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur að koma sterkar inn, þó að fyrsta bókin sé þó heldur blóðugri og meira gorí en leshringurinn minn bjóst við.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.