Lífið samstarf

Vill að les­endur skemmti sér en verði samt skít­hræddir

Forlagið
Gunnar Theodór Eggertsson hristir alla rómantík af hlýlegri ímynd huldufólks í nýjustu bók sinni Álfareiðin. Útkoman er saga sem höfðar jafnt til fullorðinna og ungmenna.
Gunnar Theodór Eggertsson hristir alla rómantík af hlýlegri ímynd huldufólks í nýjustu bók sinni Álfareiðin. Útkoman er saga sem höfðar jafnt til fullorðinna og ungmenna. Gunnar Freyr Steinsson

Gunnar Theodór Eggertsson hristir upp í rómantískri ímynd huldufólks í nýjustu bók sinni Álfareiðinni. Þetta er æsispennandi og hrollvekjandi ungmennasaga sem höfðar ekkert síður til fullorðinna.

Nú stígur hann inn á svið hreinnar hrollvekju með Álfareiðinni, nýrri ungmennabók sem ætluð er lesendum 14 ára og eldri, þar sem hann leikur sér að því sem Íslendingar hafa lengi litið á sem hinn bjarta þjóðararf: álfunum sjálfum.

Hann segir bókina vera „hrollvekju um huldufólk sem snýr rækilega upp á þjóðsögurnar okkar“ og það er ekki fjarri lagi. Gunnar hristir upp í rómantískri ímynd huldufólks í sögunni sem er æsispennandi og virðist ekki síður höfða til fullorðinna en ungmenna.

Hreinræktaður hrollur

Í Álfareiðinni fylgir lesandinn þremur menntskælingum eftir sem fá það verkefni að gera hlaðvarp um álfa. Ungmennin sýna efninu lítinn áhuga en það breytist þegar þau ramba á lítið þorp sem er óvænt orðið vinsæll ferðamannastaður. Þar ríkir undarleg stemning, fólkið talar í kringum hlutina og virðist eiga sé leyndarmál sem enginn vill nefna upphátt.

„Þau halda þangað í rannsóknarferð en þegar þau mæta á staðinn kemur í ljós að ýmislegt dularfullt er á seyði í þorpinu og stórhættulegt reynist að spyrja röngu spurninganna,“ segir Gunnar. Hann bætir við að sagan sé „hreinræktuð hrollvekja og skilgreind sem ungmennabók frekar en unglingabók, vegna þess að hún á ekki síður erindi við fullorðna lesendur.“

Álfar sem skrímsli

Gunnar hefur um árabil skrifað um huldufólk í barnabókum sínum, en nú í nýju ljósi.

Mig langaði að gera eitthvað alveg nýtt og breyta álfunum í hrein og bein skrímsli, fjarri þeirri fögru ímynd sem við höfum af þeim.

Hann bendir á að álfar hafi þó í raun alltaf verið hættulegir í þjóðsögum, en það eigi bara stundum til að gleymast. „Ég er að leika mér að því að færa þá inn í samtímann og skrifa álfana inn í hryllingsbókahefðirnar," segir Gunnar.

Finnur sig í Fox Mulder

„En ég hef alltaf laðast að furðulegum sögum og forðast raunsæisbókmenntir, það er mín leið til að reyna að skilja okkar heim og veruleika – með því að sía hann í gegnum fantasíuna. Lífið er líka bara miklu skemmtilegra þegar hið yfirnáttúrulega er hluti af heiminum. Kannski laðast ég að þessu vegna þess að ég hef aldrei upplifað neitt yfirnáttúrulegt sjálfur og langar til þess. Ég er eins og Fox Mulder, I want to believe, en á meðan hið yfirnáttúrulega lætur ekki sjá sig þurfa bókmenntirnar að duga, til að hjálpa mér að þola hversdagsleikann."

Gunnar skrifar jafnt fyrir börn, unglinga og fullorðna og segir muninn á lesendahópunum ekki eins mikinn og mætti halda. Hann skrifi ekkert öðruvísi fyrir börn en fullorðna. „Í rauninni ekki, ég skrifa þær sögur sem ég hef gaman af að lesa, eða þær sem ég veit að yngri útgáfa af mér hefði haft gaman af að lesa,“ segir hann. Eina raunverulega aðgreiningin sem hann finnur fyrir er sú að börnin þurfi vonina.

„Það er hægt að skrifa um allt mögulegt fyrir börn, svo fremi sem allt endi sæmilega vel að lokum en í fullorðinsbókunum má örvæntingin alveg eiga sviðið.“ Álfareiðin lendir mitt á milli: hryllingur, já, en ekki botnlaust myrkur.

Fullorðna fólkið, að hans mati, er þó oft tregara til að lesa furðusögur. „Það er allavega auðveldara að fá börn og unglinga til að lesa furðusögur! En fullorðna fólkið er jafnt og þétt að opna hugann fyrir því.“

Hvað les höfundurinn sjálfur? 

Langmest fantasíur og hrylling, drep af og til niður fæti í raunveruleikanum, en er síðan fljótur að hefja mig aftur til flugs. 

Bókin sem Gunnar vonast til að fá í jólapakkann í ár er annars vegar Þú sem ert á jörðu eftir Nínu Ólafsdóttur og hins vegar King Sorrow eftir Joe Hill.

Mörg járn í eldinum

Þrátt fyrir að Álfareiðin sé nýútkomin er Gunnar þegar byrjaður á næstu verkefnum eða reyndar nokkrum þeirra. „Ég er alltaf með mörg járn í eldinum og hrúgu af handritum í gangi í einu,“ segir hann.

Hann nefnir barnabók, yfirnáttúrulega morðmysteríu fyrir unglinga og nóvellu fyrir fullorðna sem verður lágstemmd furðusaga. En í hvaða röð þau munu líta dagsins ljós er ómögulegt að segja. „Það verður bara að koma í ljós.“

Hrollvekja sem færir þjóðsögurnar heim

Álfareiðin er saga sem breytir því hvernig við sjáum hið dularfulla í náttúrunni í kringum okkur. Lesendur fá að upplifa þá óvissu sem ungmennin í bókinni standa frammi fyrir, þar sem hver spurning getur verið sú síðasta sem maður spyr. Ef markmið höfundar var að gera álfana aftur hættulega og jafnvel svolítið hræðilega þá er hann sannarlega á góðri leið.

Ég vil bara að lesendur skemmti sér. Og verði líka skíthræddir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.