Fótbolti

Sjáðu stór­kost­lega hjólhestaspyrnu Ronaldos

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo skorar draumamark sitt fyrir Al-Nassr gegn Al-Khaleej.
Cristiano Ronaldo skorar draumamark sitt fyrir Al-Nassr gegn Al-Khaleej. getty/Abdullah Ahmed

Cristiano Ronaldo skoraði frábært mark með hjólhestaspyrnu fyrir Al-Nassr í 4-1 sigri á Al-Khaleej í sádi-arabísku úrvalsdeildinni í gær.

Ronaldo var rekinn út af í leik Írlands og Portúgals í undankeppni HM um þarsíðustu helgi og skammaðist í Heimi Hallgrímssyni, þjálfara írska liðsins, er hann gekk af velli.

Ronaldo virtist þó vera búinn að hrista þetta af sér þegar Al-Nassr tók á móti Al-Khaleej í gær.

Á sjöttu mínútu í uppbótartíma sendi Nawaf Boushal fyrir frá hægri á Ronaldo sem gerði sér lítið fyrir og skoraði með hjólhestaspyrnu.

Markið minnti um margt á frægt mark sem hann skoraði með hjólhestaspyrnu í leik Juventus og Real Madrid í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu 2018.

Joao Félix, Wesley og Sadio Mané voru einnig á skotskónum fyrir Al-Nassr sem hefur unnið alla níu deildarleiki sína á tímabilinu og er með fjögurra stiga forskot á toppnum.

Ronaldo er næstmarkahæstur í deildinni með tíu mörk. Félix, sem er einnig samherji hans í portúgalska landsliðinu, er markahæstur með ellefu mörk.

Hinn fertugi Ronaldo hefur skorað 110 mörk fyrir Al-Nassr síðan hann gekk í raðir liðsins frá Manchester United í ársbyrjun 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×