Fótbolti

Velsk sýning og Austur­ríki á HM í fyrsta sinn síðan 1998

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Wilson skoraði þrennu fyrir Wales í stórsigrinum á Norður-Makedóníu, 7-1.
Harry Wilson skoraði þrennu fyrir Wales í stórsigrinum á Norður-Makedóníu, 7-1. getty/James Gill

Evrópumeistarar Spánar, Sviss, Austurríki, Belgía og Skotland tryggðu sér í kvöld sæti á heimsmeistaramótinu í fótbolta á næsta ári.

Wales tryggði sér heimavallarrétt í umspili um sæti á HM með stórsigri á Norður-Makedóníu, 7-1, í hreinum úrslitaleik um 2. sætið í J-riðli. Harry Wilson skoraði þrennu fyrir velska liðið og David Brooks, Brennan Johnson, Daniel James og Nathan Broadhead sitt markið hver.

Belgía tryggði sér toppsætið í J-riðlinum og um leið sæti á HM með stórsigri á Liechtenstein á heimavelli, 7-0. Jérémy Doku og Charles De Ketelaere skoruðu báðir tvö mörk og Hans Vanaken, Brandon Mechele og Alexis Saelemaekers voru einnig á skotskónum í kvöld.

Austurríki er komið á HM í fyrsta sinn síðan 1998. Liðið tryggði sér efsta sætið í H-riðli með því að gera 1-1 jafntefli við Bosníu í Vín. Haris Tabakovic kom Bosníumönnum yfir á 12. mínútu en Michael Gregoritsch tryggði Austurríkismönnum HM-sætið þegar hann jafnaði á 77. mínútu.

Eftir að hafa unnið fyrstu fimm leiki sína í E-riðli án þess að fá á sig mark gerðu Evrópumeistarar Spánar 2-2 jafntefli við Tyrkland í kvöld. Þrátt fyrir það eru Spánverjar komnir á HM.

Dani Olmo og Mikel Oyarzabal skoruðu mörk spænska liðsins en Deniz Gül og Salih Özcan fyrir það tyrkneska sem fer í umspil.

Sviss tryggði sér endanlega sæti á HM með því að gera 1-1 jafntefli við Kósovó á útivelli. Svisslendingar fengu fjórtán stig í B-riðli og héldu hreinu í fjórum af sex leikjum sínum.

Svíþjóð og Slóvenía gerðu 1-1 jafntefli í sama riðli. Þrátt fyrir að Svíar hafi endað í neðsta sæti hans og aðeins náð í tvö stig fara þeir í umspil í gegnum Þjóðadeildina.

Þá er Skotland komið á HM í fyrsta sinn í 28 ár eftir 4-2 sigur á Danmörku í dramatískum leik á Hampden Park í Glasgow.

Úrslit kvöldsins í undankeppni HM 2026

B-riðill

  • Kósovó 1-1 Sviss
  • Svíþjóð 0-1 Slóvenía

C-riðill

  • Skotland 1-1 Danmörk
  • Hvíta-Rússland 0-0 Grikkland

E-riðill

  • Spánn 2-2 Tyrkland
  • Búlgaría 2-0 Georgía

H-riðill

  • Austurríki 1-1 Bosnía
  • Rúmenía 5-1 San Marinó

J-riðill

  • Belgía 7-0 Liechtenstein
  • Wales 6-1 Norður-Makedónía



Fleiri fréttir

Sjá meira


×