Fótbolti

Káfaði á rassi Haaland og kom honum í stuð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðbrögð Erling Braut Haaland við því þegar Gianluca Mancini var að káfa á rassinum á honum. Hann svaraði síðan með tveimur mörkum.
Viðbrögð Erling Braut Haaland við því þegar Gianluca Mancini var að káfa á rassinum á honum. Hann svaraði síðan með tveimur mörkum. Getty/Image Photo Agency

Það borgar sig ekkert að vera espa upp Erling Braut Haaland í leikjum. Það sannaðist enn á ý.

Það urðu smá læti í kringum norska framherjann Erling Braut Haaland þegar norska landsliðið tryggði sig inn á sitt fyrsta heimsmeistaramót á þessari öld.

Norðmenn máttu tapa lokaleiknum á móti Ítölum með átta mörkum en ætluðu sér að vinna og klára riðilinn með fullu húsi.

Í fyrri hálfleiknum gekk lítið hjá Haaland og félögum.

Francesco Pio Esposito hafði komið ítalska liðinu yfir á ellefu mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik.

Staðan var 1-1 eftir rúmlega klukkutíma leik. Jöfnunarmarkið skoraði Antonio Nusa en lítið sást til Haaland.

Á 69. mínútu lenti hann upp á kant við ítalska varnarmanninn Gianluca Mancini.

Haaland var mjög ósáttur með Mancini og eftir leik kom í ljós hvað það var.

„Í stöðunni 1-1 þá byrjaði hann að káfa á rassinum mínum og ég spurði hvað ertu að gera?“ sagði Haaland.

„Þetta kveikti aðeins í mér og ég sagði honum. Látum reyna á þetta. Svo skoraði ég tvö mörk og við unnum. Þetta gekk því afar vel og ég vil bara þakka honum fyrir,“ sagði Haaland sposkur á svip.

Mancini ætlaði sér greinilega að pirra þarna Haaland sem hafði verið lítið með í leiknum.

Káfið hans kveikti hins vegar í norska ofurframherjanum. Hann kom Norðmönnum yfir innan við tíu mínútum síðar og aðeins mínútu seinna var hann búinn að skora aftur.

Norðmenn unnu alla átta leiki sína í riðlinum og Haaland skoraði sextán mörk í þeim eða tvö mörk að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×