Fótbolti

Hvernig umspil færi Ís­land í?

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson og félagar eiga afar erfitt verkefni fyrir höndum í Varsjá en ætla sér í HM-umspilið.
Albert Guðmundsson og félagar eiga afar erfitt verkefni fyrir höndum í Varsjá en ætla sér í HM-umspilið. Getty/Aziz Karimov

Ísland mætir Ítalíu á Laugardalsvelli, þann 31. mars, í hreinum úrslitaleik um hvort liðanna verður með á HM í fótbolta næsta sumar, eftir sigurinn gegn Tékkum í Prag fimm dögum áður.

Nei, þetta er reyndar ekki alveg rétt. En þetta er ein mögulegra sviðsmynda fari svo að strákarnir okkar nái að forðast tap gegn Úkraínu á morgun klukkan 17, í einvígi liðanna um að komast í HM-umspilið. 

Það verður svo sannarlega mikið í húfi í Varsjá og þangað er íslenska liðið mætt eftir 2-0 sigurinn gegn Aserum á fimmtudag.

Eins og margoft hefur komið fram þarf Ísland jafntefli eða sigur gegn Úkraínu til að ná 2. sæti D-riðils. Þá kemst liðið í umspil um sæti á HM og þarf að vinna tvo andstæðinga í lok mars til að komast á sjálft heimsmeistaramótið, sem fram fer í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada.

Leiðin á HM er sem sagt löng, jafnvel þó að allt gengi upp á morgun.

Tvö dæmi um mögulega leið Íslands í umspili:

Dæmi 1:

Undanúrslit: Tékkland – Ísland

Úrslit: Ítalía – Ísland

Dæmi 2:

Undanúrslit: Albanía – Ísland

Úrslit: Ísland - Svíþjóð

Dregið verður í umspilið næsta fimmtudag. Þar verða 16 lið (liðin 12 sem enda í 2. sæti riðlanna í undankeppninni auk fjögurra liða sem unnu sinn riðil á síðustu leiktíð Þjóðadeildarinnar), sem búið verður að skipta í fjóra styrkleikaflokka, og þau dragast svo í fjögur aðskilin fjögurra liða umspil. Sigurvegari hverrar umspilsleiðar kemst svo á HM.

Útileikur í undanúrslitum en dregið um völl í úrslitaleik

Sterkustu liðin fá heimaleik í undanúrslitum umspilsins en það verður dregið um það hvaða lið spila á heimavelli í úrslitum hvers umspils. Heppni getur því ráðið talsvert miklu um möguleikann á að komast á HM.

Raðað verður í styrkleikaflokka út frá næsta heimslista FIFA (nema hvað liðin fjögur sem komast í umspilið vegna árangurs úr Þjóðadeild fara öll í 4. flokk) en ætla má að Ísland yrði í 3. flokki. Það þýðir að liðið myndi fyrst fá andstæðing úr 2. flokki og neyðast til að spila þann leik á útivelli.

Sigurinn gegn Aserum á fimmtudaginn gaf Íslandi von um að komast í HM-umspilið.KSÍ

Ef Ísland næði að vinna þennan mótherja á útivelli (mögulega yrði það Skotland, Tékkland, Slóvakía eða Albanía) myndi svo taka við úrslitaleikur, annað hvort á Laugardalsvelli eða útivelli, gegn liði á borð við til dæmis Ítalíu, Tyrkland, Pólland eða Svíþjóð.

Veðbankar reikna með að það verði Úkraína sem kemst úr riðli Íslands í umspilið en ef við skiptum Úkraínu út og setjum Ísland í staðinn þá er mögulegt að styrkleikaflokkarnir fyrir dráttinn næsta fimmtudag líti svona út:

Flokkur 1: Ítalía, Tyrkland, Pólland, Ungverjaland

Flokkur 2: Skotland, Tékkland, Slóvakía, Albanía

Flokkur 3: Norður-Makedónía, Ísland, Kósovó, Bosnía

Flokkur 4: Wales, Svíþjóð, Rúmenía, Norður-Írland

Það skýrist þó ekki endanlega fyrr en eftir helgi þegar keppni í undanriðlunum lýkur.

Ljóst í desember í hvaða riðli umspilslið verða á HM

Þess má svo geta að það verður dregið í riðla fyrir HM í Washington þann 5. desember, eða löngu áður en umspilið fer fram í lok mars. 

Þetta þýðir að liðin í umspilinu, vonandi Ísland þar á meðal, munu strax 5. desember vita í hvaða riðli þau myndu enda á HM kæmust þau þangað, og þá hvar yrði leikið. Í stað eiginlegs liðs verður sem sagt hver „umspilsleið“ dregin í riðil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×