Fótbolti

Ensku stjörnurnar klæðast hugbreytandi inni­skóm

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Rashford hefur verið þekktur fyrir góðan fókus og nú gæti hann orðið enn betri.
Rashford hefur verið þekktur fyrir góðan fókus og nú gæti hann orðið enn betri.

Frumlegir og litríkir inniskór hafa fangað athygli aðdáenda enska landsliðsins í aðdraganda leikja gegn Serbíu og Albaníu í undankeppni HM.

Landsliðsmenn Englands hafa ítrekað sést klæddir í hnausþykka rauða inniskó frá Nike undanfarna daga og þó þetta líti bara út eins og vel undirbúin markaðssetning eiga skórnir að hafa „hugbreytandi áhrif“ á íþróttafólk.

Marcus Rashford, framherji Barcelona, hefur sést í slíkum skóm og Ezri Konsa, varnarmaður Aston Villa, mætti í þeim á blaðamannafund í gær.

Skórnir eru ekki komnir í almenna sölu en eiga, samkvæmt Nike, að virkja ákveðnar stöðvar í heilanum. Hnúðarnir undir ilinni eiga þannig að senda taugaboð sem hafa „hugbreytandi áhrif og hjálpa íþróttafólki að vera í núinu og tengjast nærumhverfinu“ eins og yfirmaður hjá Nike útskýrði í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem enska knattspyrnusambandið bryddar upp á einhverjum nýjungum, á Evrópumótinu í fyrra voru leikmenn látnir ganga um með hring frá fyrirtæki Oura sem mældi svefngæði og endurhæfingarhraða, auk þess sem þeir drukku súrgúrkusafa til að koma í veg fyrir krampa.

Landsliðsþjálfarinn, hinn þýski Thomas Tuchel, hefur ekki endilega trú á þessu öllu saman en segir allt sem gæti hjálpað leikmönnum vera af hinu góða.

„Þeir segja mér að þetta hjálpi þeim að einbeita sér á fundum, ég vona bara að þeir trúi því. Það er mikilvægast í þessu, að þeir trúi á vísindin bakvið þetta, þó ég þekki þau ekki sjálfur“ sagði Tuchel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×