Fótbolti

Franski rapparinn segir deilurnar við Mbappé bara mis­skilning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fannst þetta ekki sniðugt og rapparinn er nú að draga í land með allt saman.
Kylian Mbappe fannst þetta ekki sniðugt og rapparinn er nú að draga í land með allt saman. Getty/Shaun Brooks

Það boðar ekkert voðalega gott fyrir Frakka að standa í deildum við eina stærstu íþróttastjörnu þjóðarinnar.

Franski rapplistamaðurinn Orelsan sagði í gær að „misskilningur“ hefði líklega valdið deilum hans við fótboltastjörnuna Kylian Mbappé.

Orelsan, einn vinsælasti og söluhæsti franski rapplistamaður samtímans, reitti framherja Real Madrid til reiði með textabroti úr lagi á nýjustu plötu sinni, „La fuite en avant“. Í laginu – „La petite voix“ – rappar Orelsan eins og innri rödd sem gagnrýnir og móðgar listamanninn, fjölskyldu hans og aðdáendur.

Á einum tímapunkti beinir röddin einnig spjótum sínum að Mbappé-fjölskyldunni: „Þú munt sökkva borginni þinni eins og Mbappé-fjölskyldan“ – og vísar þar til yfirtöku fyrirtækis framherjans, Interconnected Ventures, á fótboltafélaginu Caen árið 2024.

Orelsan ólst upp í borginni í Normandí og er lengi búinn að vera aðdáandi liðsins, sem féll niður í þriðju deild franska fótboltans á síðasta tímabili.

Tók textabrotinu persónulega

Mbappé tók textabrotinu persónulega og sakaði Orelsan um tvískinnung.

„Þér er velkomið að koma og „bjarga“ borginni sem þú elskar svo mikið,“ skrifaði fyrirliði Frakklands í síðustu viku í skilaboðum á samfélagsmiðlum og bætti við í eftirmála: „Gaurinn hélt áfram að biðja okkur um að vera með fyrir 1% án þess að borga krónu, af því að hann er blankur, bara til að líta út eins og góði gaurinn frá Normandí,“ skrifaði Mbappé.

Orelsan hefur síðan forðast að magna deiluna og gaf í skyn á miðvikudag í viðtali við Fun Radio að misskilningur hefði hrint deilunni af stað.

Enn í hita leiksins

„Mig langar eiginlega ekki að svara,“ sagði Orelsan. „Ég er enn í hita leiksins og mig langar eiginlega ekki að tala um þetta. Þetta er misskilningur. Ég held að ég þurfi bara að útskýra hugmyndina á bak við plötuna almennilega.“

Orelsan útskýrði þema lagsins nánar: „Þessir neikvæðu hlutir mynda eins konar innri rödd, innri gagnrýnanda, sem byrjar að naga mig og sér bara það slæma. Það er stórt þema plötunnar.“

Þegar Mbappé var spurður út í deiluna í æfingabúðum Frakklands á miðvikudag neitaði hann að tjá sig.

„Ekkert að segja, ég hef ekki áhuga,“ sagði Mbappé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×