Fótbolti

Sæ­dís og Arna fengu silfrið en Diljá meiddist

Sindri Sverrisson skrifar
Landsliðskonan Diljá Ýr Zomers fór meidd af velli í kvöld.
Landsliðskonan Diljá Ýr Zomers fór meidd af velli í kvöld. vísir/Anton

Diljá Ýr Zomers, nýkrýndur Noregsmeistari í fótbolta með Brann, fór meidd af velli í leik í kvöld, skömmu eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Dijá kom inn á í 3-1 útisigri gegn Stabæk, í upphafi seinni hálfleiks, en þá var staðan þegar orðin 3-0 og Selfyssingurinn fyrrverandi Brenna Lovera búin að skora tvö mörk.

Diljá hafði bara verið inni á vellinum í tvær mínútur þegar hún lá eftir á jörðinni, eftir návígi. Hún reyndi að harka af sér en var svo skipt af velli á 57. mínútu, eða tólf mínútum eftir að hún kom inn á.

Brann hafði eins og fyrr segir þegar tryggt sér meistaratitilinn en síðustu meistarar, Vålerenga, tryggðu sér endanlega silfurverðlaunin í kvöld.

Arna leysti Sædísi af hólmi

Vålerenga hafði nánast tryggt sér silfrið en gerði það endanlega með 3-1 útisigri gegn Rosenborg, þrátt fyrir að hafa lent undir. Rosenborg var eina liðið sem með sigri hefði enn getað náð Vålerenga að stigum en markatala Vålerenga var hins vegar mun betri. Rosenborg endar í 3. sæti.

Sædís Rún Heiðarsdóttir var í byrjunarliði Vålerenga og lék í 80 mínútur en önnur íslensk landsliðskona, Arna Eiríksdóttir, kom þá inn á í hennar stað.

Vålerenga og Rosenborg mætast aftur eftir tvær vikur í úrslitaleik norsku bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×