Körfubolti

Hlýtur að vera al­vöru krísufundur í Valsheimilinu um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox og Frank Aron Booker eru í stóru hlutverkum hjá Valsmenn og leiðtogar liðsins.
Kristófer Acox og Frank Aron Booker eru í stóru hlutverkum hjá Valsmenn og leiðtogar liðsins. @ghinfocus

Valsmenn fengu slæman skell í síðustu umferð Bónus-deildar karla í körfubolta og skoruðu aðeins 55 stig á heimavelli sínum í 35 stiga tapi á móti Grindavík. Sérfræðingar Bónus Körfuboltakvöld spyrja sig líka hvað sé eiginlega í gangi hjá Valsliðinu.

Bandaríkjamaðurinn LaDarien Griffin er ekki að hella sérfræðingana í Körfuboltakvöldi og langt frá því. Hann var með eina körfu á rúmum tuttugu mínútum í þessum skelli á móti Grindavík og er bara með 6,2 stig að meðaltali í leik í vetur.

Hann getur ekkert þessi

„Það er náttúrulega bara stórskrítið ef að þeir halda honum fram yfir landsleikjafríið,“ sagði Magnús Þór Gunnarsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

Klippa: Hvað er í gangi hjá Val?

„Þeir gerðu það með hinn fram að jólum í fyrravetur en hann getur ekkert þessi. Bara getur ekki neitt. Hann er góður í vörn af og til, en það sýndi sig bara þegar Ástþór [Svalason] kom inn á og tók víti í síðasta leik, en ekki hann,“ sagði Magnús.

Þá vísar hann til þess að þegar Kristófer Acox fór meiddur af velli og það þurfti að velja aðra vítaskyttu á bekknum þá valdi Finnur Freyr Stefánsson þjálfari liðsins ekki Bandaríkjamanninn sinn.

Augljóslega ekki nægilega góður

„Við skulum ekki fara svo djúpt að segja að hann geti ekki neitt en hann er augljóslega ekki nægilega góður til þess að vera í þessari deild. Hvað þá með liði sem ætlar sér stóra hluti,“ sagði Sævar Sævarsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

Sævar bendir á að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Valsmenn eru í vandræðum með erlendu leikmennina sína.

Einhver vinaafsláttur

„Það er eins og þeir séu að selja þá hugmynd að það sé hægt að ná langt án þess að vera með öll útlendingaígildin tilbúin eða með gæði. Svo þurfa þeir alltaf að fara í einhverjar hrókeringar. Ég bara skil þetta ekki. Þetta er bara einhver tilraunastarfsemi. Það er eins og þetta hafi verið einhver vinaafsláttur,“ sagði Sævar og hann vísar í það sem Pavel Ermolinskij sagði um þessar slæmu byrjanir Valsliðsins.

„Það er enginn að setja það þannig upp að þeir ætli að fara hægt af stað. Þeir gera bara mistök í útlendingavali og íslenski kjarninn, sem eru lykilleikmenn, er að fara illa af stað. Það er eitthvað sem segir mér að það sé einhver þreyta komin í þetta, hvort sem það er komin þreyta í stjórnina, þjálfarateymið, leikmenn eða hvað það er. Það hlýtur að vera einhver alvöru krísufundur í Valsheimilinu um helgina,“ sagði Sævar.

Það má horfa á alla umræðuna um Valsmenn hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×