Fótbolti

Flytur langt í burtu frá Ítalíu ef liðið hans kemst ekki á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gennaro Gattuso hefur tekið til hjá ítalska landsliðinu og stýrt liðnu til sigurs í fjórum leikjum í röð.
Gennaro Gattuso hefur tekið til hjá ítalska landsliðinu og stýrt liðnu til sigurs í fjórum leikjum í röð. Getty/Emmanuele Ciancaglini

Þjálfari ítalska fótboltalandsliðsins hótar því að fara í útlegð frá sínu eigin landi ef landsliðið hans kemst ekki á þriðja heimsmeistaramótið í röð.

Gennaro Gattuso hefur verið þjálfari ítalska landsliðsins frá því í júní en hann varð sjálfur heimsmeistari með liðinu sem leikmaður árið 2006.

Eftir erfiða byrjun á undankeppninni þá hefur Gattuso hjálpað til við að endurvekja vonir þeirra um að komast á mótið á næsta ári sem haldið verður í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada.

3-0 sigurinn á Ísrael á þriðjudag var fjórði sigur Ítalíu í röð undir stjórn Gattuso og tryggði liðinu sæti í umspili um laust sæti á HM 2026.

„Ég mun taka heiðurinn ef mér tekst að ná markmiðinu, annars fer ég og bý langt í burtu frá Ítalíu,“ sagði Gattuso.

„Ég er nú þegar svolítið langt í burtu [býr í Marbella á Spáni] en ég mun fara enn lengra. Þetta eru afleiðingarnar, ég geri mér grein fyrir því,“ sagði Gattuso.

Ítalía er þremur stigum á eftir Noregi, sem er í efsta sæti I-riðils. Azzurri spila við Moldóvu 13. nóvember og taka á móti Noregi þremur dögum síðar í síðasta leik sínum í riðlakeppninni.

Þrátt fyrir þá pressu sem fylgir því að þjálfa fjórfalda heimsmeistara sagði Gattuso að það væri heiður að vera í þessari stöðu.

„Ég hef sagt það áður, það er draumur að vera hér og það er satt,“ sagði Gattuso.

„Það voru menn með meiri reynslu en ég og þess vegna tók ég þessu kalli með mikilli ábyrgð. Ég verð að þakka knattspyrnusambandinu, forseta þess [Gabriele Gravina] og sendinefndarstjóra Ítalíu, Gianluigi Buffon. Ég bjóst ekki við að leiða liðið til sextán marka, en heiðurinn er leikmannanna. Ég á lítinn heiður skilinn.“ sagði Gattuso.

„Við þurfum að halda áfram á þessari braut. Já, við leggjum mikið á okkur og sofum lítið, en við gerum þetta líka vegna þess að þegar sigrarnir koma er tilfinningin mjög góð,“ sagði Gattuso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×