Fótbolti

„Svekkjandi að missa af næsta leik“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andri Lucas lagði þriðja mark Íslands upp en missir af næsta leik gegn Frakklandi.
Andri Lucas lagði þriðja mark Íslands upp en missir af næsta leik gegn Frakklandi. vísir / anton brink

„Maður á eiginlega ekki til eitt aukatekið orð, þeir skora bara úr hverju einasta skoti“ sagði landsliðsmaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen eftir 3-5 tap fyrir Úkraínu. Hann verður í banni í leiknum gegn Frakklandi á mánudag, eftir að hafa rifið kjaft við dómarann í kvöld.

„Ógeðslega svekkjandi, mér fannst við ekki eiga lélegan leik, fáum bara alltof mörg mörk á okkur“ sagði Andri einnig í viðtali við Val Pál Eiríksson eftir leik.

Honum fannst ekki tilefni til að hafa áhyggjur, þó menn hafi slökkt á sér og Ísland hafi fengið tvö mörk á sig undir lok bæði fyrri og seinni hálfleiks.

„Þetta var bara skrítinn leikur. Við munum fara yfir hann og skoða hvað við hefðum getað gert betur… Það er erfitt að segja [hvað vandamálið var], þegar við fáum fimm mörk á okkur, það er náttúrulega bara ekki í lagi.“

„Hafði engan áhuga á að tala við hann“

Andri Lucas fékk gult spjald undir lok fyrri hálfleiks fyrir að rífa kjaft við dómarann og verður því í banni í leiknum gegn Frakklandi á mánudag.

„Mér fannst það ekki alveg nógu sanngjarn dómur. Það koma 2-3 skipti þar sem mér fannst ég hafa átt að fá brot, en hann var ekki sammála. Ég hafði engan áhuga á að tala við hann, þannig að ég fékk gult fyrir það og já, það er svekkjandi að missa af næsta leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×