Körfubolti

„Mjög stoltur af liðinu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steinar Kaldal er þjálfari nýliða Ármanns.
Steinar Kaldal er þjálfari nýliða Ármanns. vísir/anton

Steinar Kaldal, þjálfari Ármanns, hrósaði sínum mönnum eftir tapið fyrir KR, 89-115, í Laugardalshöllinni í dag. Þetta var fyrsti heimaleikur Ármenninga í efstu deild í 44 ár.

Líkt og gegn Álftanesi lék Bandaríkjamaðurinn Dibaji Walker ekki með Ármanni í kvöld og þá meiddist Cedrick Bowen snemma leiks.

„Ég er bara mjög stoltur af liðinu. Við erum þunnskipaðir í kvöld og það vantar mjög marga í liðið. Ég er ánægður með þá sem spiluðu,“ sagði Steinar við Vísi eftir leik.

„Við fengum það sem mér fannst vanta frá síðasta leik; að menn voru að sýna smá hjarta í því sem þeir voru að gera. Ég var fyrst og fremst að horfa á það í þessum leik,“ sagði Steinar.

„Síðan gerist það að þeir eru fleiri, með breiðari hóp og meiri hæð og halda áfram að keyra á okkur. Það verður bara erfitt. Þeir hittu frábærlega í fyrri hálfleiknum og voru með sextíu prósent þriggja stiga nýtingu. Á meðan vorum við með tuttugu prósent skotnýtingu sem er ekki heldur gott. Það gerir það einnig að verkum að það er töluverður munur á liðunum.“

Steinar segist ekki alveg viss hvað kom fyrir Cedrick í upphafi leiks.

„Hann fór bara út af á börum. Það var eitthvað vesen á bakinu á honum. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er,“ sagði Steinar sem gengur mun sáttari frá þessum leik en leiknum gegn Álftanesi.

„Miklu sáttari en það er auðvitað leiðinlegt að byrja deildina bara án Bandaríkjamannsins sem á að vera okkar sterkasti maður og svo er Arnaldur [Grímsson] á öðrum fætinum. En ég er bara mjög sáttur við menn í dag.“

Steinar vonast til að Walker verði kominn með atvinnuleyfi fyrir næsta leik.

„Ég veit það ekki en auðvitað vona ég að það gerist. En ég stilli bara næsta leik í rauninni upp án hans og vona svo að hann verði kominn með leyfi,“ sagði Steinar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×