Lífið

Heima­til­búið „corny“

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Guðrún Ásdís er fjögurra barna móðir búsett í Höfn á Hornarfirði og heldur úti Instagram-síðunni Heilshugarlífstíll.
Guðrún Ásdís er fjögurra barna móðir búsett í Höfn á Hornarfirði og heldur úti Instagram-síðunni Heilshugarlífstíll.

Guðrún Ásdís, sem heldur úti Instagram-síðunni Heilshugarlífstíll, deildi nýlega uppskrift að vinsælum hafrastykkjum eftir fjölda fyrirspurna frá fylgjendum sínum. Hún segir stykkin henta einstaklega vel sem nesti í skólann, í gönguferðir eða bara með kaffinu.

„Þau eru mjög vinsæl hérna heima – krakkarnir elska þau og við líka. Þau eru geggjað nammi með kaffinu, en henta líka fullkomlega sem nesti eftir íþróttaæfingar eða í gönguferðir,“ segir Guðrún. Hún bætir við að stykkin séu bæði mjólkur- og hnetulaus og því fullkomin fyrir fjölskyldur með ofnæmi eða skóla sem banna hnetur.

Guðrún er fjögurra barna móðir og eiginkona, búsett á Höfn í Hornafirði. Hún hefur fylgt plöntumiðuðu mataræði í mörg ár og segir markmið sitt að verða 100 ára – og geta staðið á höndum! Nú vinnur hún að því að byggja upp vettvang þar sem fólk getur sótt sér innblástur, fræðslu og samfélag um heilbrigðan og sjálfbæran lífsstíl, ásamt því að vinna að samfélagsverkefnum á þessum sviðum.

Á Instagram-síðu hennar má nálgast fleiri uppskriftir.

Heimatilbúin hafrastykki – okkar útgáfa af „Corny“

Hráefni:

  • ½ bolli sólblómafræsmjör (sólblómafræsmjör þarf að útbúa frá grunni, má nota annarsskonar hnetusmjör – en með sólblómafræjum er þetta hnetulaust)
  • ½ bolli hlynsíróp
  • 1 tsk vanilludropar
  • 5 stk rískökur, muldar
  • 1½ bolli gróft haframjöl
  • 1 bolli blönduð fræ, hnetur eða rúsínur (sleppið hnetum til að halda hnetulausu)
  • 1 plata suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Ristið sólblómafræ á pönnu þar til gyllt. Setjið í blandara og blandið þar til verður að smjöri. Það þarf stundum að stoppa og skrapa úr hliðunum – krefst smá þolinmæði.
  2. Hitið fræsmjörið með hlynsírópi og vanilludropum við vægan hita.
  3. Blandið þurrefnunum saman í skál og blandið við blautefnið. Hrærið vel.
  4. Þrýstið í mót ofan á smjörpappír og frystið í nokkra tíma.
  5. Bræðið suðusúkkulaði og hellið yfir. Setjið aftur í frysti í hálftíma áður en þið skerið niður í bita.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.