Bíó og sjónvarp

Hanna Björk verð­launuð af leik­stjórum á Norður­löndum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hanna Björk segir erfitt að fjármagna heimildarmyndir eins og hana langi til að gera. Hún geri líf sitt erfitt með þessum hætti, að taka að sér klikkuð verkefni sem svo þurfi að ganga upp.
Hanna Björk segir erfitt að fjármagna heimildarmyndir eins og hana langi til að gera. Hún geri líf sitt erfitt með þessum hætti, að taka að sér klikkuð verkefni sem svo þurfi að ganga upp.

Hanna Björk Valsdóttir hlaut Nordic Documentary Producer Award 2025 sem veitt eru framúrskarandi framleiðanda heimildamynda. Leikstjórar á Norðurlöndunum tilnefna einn framleiðanda ár hvert, frá hverju landi og voru verðlaunin veitt á lokahófi Nordisk Panorama hátíðarinnar í Malmö.

Í umsögn dómnefndar segir:

„Þessi metnaðarfulli framleiðandi virkjar sköpunarmáttinn á sama tíma og hann styður við leikstjórana sem hann vinnur með. Við dáumst að langvarandi tryggð framleiðandans við listrænar og framsæknar heimildamyndir sem vekja alþjóðlega athygli. Það er aldrei auðvelt að gera heimildamyndir – og enn síður í heimalandi framleiðandans – en þessi staðfasta manneskja heldur áfram af hugrekki og listfengi. Verðlaunin fara til Hönnu Bjarkar Valsdóttur.“

Hanna Björk var í viðtali í vikunni spurð út í heimildarmyndagerð og hvers hún saknaði. Hún sagðist meðal annars sakna mynda sem reyndu að stækka formatið. Hún væri ekki aðdáandi mynda sem styddust við sömu formúlu heldur elskaði hún þegar fólk færi nýjar leiðir.

Hanna Björk er framleiðandi og leikstjóri sem sérhæfir sig í framleiðslu á skapandi heimildamyndum í fullri lengd fyrir alþjóðlegan og innlendan markað. Hanna Björk hefur hlotið fjölda tilnefninga til Edduverðlaunana fyrir heimildamyndir og stuttmyndir og hefur unnið Edduna fyrir heimildamynd ársins fyrir Hvell (2013) og Draumalandið (2009). 

Hún stofnaði sitt eigið framleiðslufyrirtæki Akkeri Films árið 2014 ásamt hljóðhönnuðinum Birni Viktorssyni. Fyrstu kvikmyndir Akkeri Films í fullri lengd voru KAF (2019) og Síðasta haustið (2019) sem sýndar voru víða um heim á kvikmyndahátíðum. 

Nýlegar myndir eru m.a. Bogancloch (2024) eftir Ben Rivers sem var frumsýnd á Locarno kvikmyndahátíðinni og Jörðin undir fótum okkar (2025) eftir Yrsu Roca Fannberg frumsýnd á heimildamyndahátíðinni CPH:DOX í ár.

Jörðin undir fótum okkar verður frumsýnd á Íslandi 2. október á kvikmyndahátíðinni RIFF og fer myndin í sýningar í Bíó Paradís 6. október. Jörðin undir fótum okkar fjallar um lífið á elliheimilinu Grund, fangað á filmu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.