Bíó og sjónvarp

Vaða beint í aðra bók eftir Sig­ríði Haga­lín

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ugla Hauksdóttir og Grímar Jónsson með aðalleikurum Eldanna, Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur og Pilou Asbæk.
Ugla Hauksdóttir og Grímar Jónsson með aðalleikurum Eldanna, Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur og Pilou Asbæk.

Leikstjórinn Ugla Hauksdóttir og framleiðandinn Grímar Jónsson sem unnu saman að kvikmyndinni Eldunum eru þegar byrjuð að vinna að næstu mynd sinni. Hún mun byggja á annarri bók eftir Sigríði Hagalín, dystópísku skáldsögunni Eylandi.

Hamfaramyndin Eldarnir í leikstjórn Uglu Hauksdóttir og með Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur, Pilou Asbæk og Jóhanni G. Jóhannssyni í aðalhlutverkum kom út 11. september síðastliðinn. Myndin rauk beint á topp íslenska aðsóknarlistans og hefur verið þar í tvær vikur.

„Það hefur verið sérlega ánægjulegt að upplifa sterk viðbrögð áhorfenda hérna heima en á sama tíma erum við líka mjög spennt fyrir því að sýna hana út um allan heim. Það verður langt og vonandi skemmtilegt ferðalag líka,“ segir Grímar Jónsson, framleiðandi myndarinnar, en myndin hefur verið til yfir þrjátíu landa, þar á meðal Þýskalands og Frakklands.

„Við stjórnum því hvenær og hvernig myndin er lögð á borð hérna heima en höfum ekkert um það að segja í öðrum löndum. Þar ráða dreifingaraðilar hvers lands fyrir sig hvenær myndin verður sýnd,“ segir Grímar. 

Oft sé það í tengslum við kvikmyndahátíðir og langur tími geti liðið milli sýninga í ólíkum löndum. „En Ugla má eiga vona á því að þurfa að ferðast töluvert á næsta ári til að fylgja myndinni eftir,“ bætir hann við.

Umfjöllunarefnið sjaldan verið raunsærra

Eldarnir hafa gengið það vel að þau Grímar og Ugla eru þegar farin að vinna að næstu mynd og þau sækja í skothelda formúlu.

„Við Ugla erum byrjuð að vinna að okkar næstu mynd saman. Við leitum ekki langt heldur ætlum við að gera kvikmynd eftir annarri bók Sigríðar Hagalín, Eyland, sem kom út árið 2016,“ segir Grímar.

Rithöfundarnir Jón Kalman og Sigríður Hagalín á tökustað Eldanna.Netop Films

„Því miður hefur þema og umfjöllunarefni þeirrar bókar sjaldan verið raunsærra og því mjög spennandi tímar framundan við þróun þess verkefnis,“ bætir hann við.

Eyland er fyrsta skáldsaga Sigríðar Hagalín, hrollvekjandi ástar- og spennusaga sem fjallar um það þegar samband Íslands við umheiminn slitnar. Bókin naut gríðarlegra vinsælda og hefur komið út á fjölda tungumála.

„Það hefur tekið mig að meðaltali fimm  ár að gera kvikmynd og því vil ég engu lofa um það hvenær hún verður tilbúin. Best að láta verkin tala. En ég vona að Eyland rati í kvikmyndahús árið 2027 eða 2028,“ segir hann.

Sigríður Hagalín fylgdi eftir Eylandi með Hinu heilaga orði árið 2018 og svo Eldunum árið 2020.

Tengdar fréttir

Virkilega sláandi lífsreynsla að koma til Grindavíkur

„Ég er fyrst og fremst ótrúlega stolt af myndinni – og þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri; að leika þessa flóknu konu sem fær þennan stóra boga. Það er ekki á hverjum degi á Íslandi sem það kemur út kvikmynd sem er þroskasaga einnar konu, skrifuð af konu og leikstýrt af konu,“ segir Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikkona sem fer með burðarhlutverkið í íslensku stórmyndinni Eldarnir sem frumsýnd verður þann 11. september næstkomandi.

Eldgos og elskhugar á frumsýningu Eldanna

Rómantíski spennutryllirinn Eldarnir var frumsýndur fyrir fullum sal í Smárabíó 3. september síðastliðinn. Eftirvæntingin var mikil og stemmingin brakandi af myndum að dæma.

Sögu­efnið gott því að ham­farirnar eru mögu­legar

Sigríður Hagalín Björnsdóttir, rithöfundur og fréttamaður, hefur mikinn áhuga á hamförum. Og hamfarirnar rekur hún svo sannarlega, eins vísindalegar og raunverulegar og henni var framast unnt, í nýútkominni skáldsögu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.