Fótbolti

Eggert lagði upp tvö en slæmt tap hjá liði Stefáns

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Eggert Aron lagði upp tvö fyrstu mörk Brann í öruggum 5-1 sigri. 
Eggert Aron lagði upp tvö fyrstu mörk Brann í öruggum 5-1 sigri. 

Eggert Aron Guðmundsson lagði upp fyrstu tvö mörkin í 5-1 sigri Brann á útivelli gegn Mjöndalen í norsku bikarkeppninni í fótbolta. Á sama tíma tapaði Sandefjord, lið Stefáns Inga Sigurðarsonar, 6-1 gegn liði úr C-deild.

Sandefjord tók bikarleikinn gegn Tromsdalen ekki mjög alvarlega, allavega af byrjunarliðinu að dæma. Enginn af byrjunarliðsmönnum dagsins byrjaði síðasta deildarleik og flestallir fastamenn liðsins voru utan hóps, þar með talinn Stefán Ingi.

Stefán Ingi var ekki í leikmannahópi Sandefjord sem féll úr leik í bikarnum. Facebooksíða Sandefjord

Sem heppnaðist ekki betur en svo að Tromsdalen rústaði Sandefjord 6-1. Liðið í öðru sæti C-deildarinnar heldur því áfram í næstu umferð en áttunda efsta lið úrvalsdeildarinnar situr eftir.

Freyr Alexandersson gerði ekki sömu mistök og stillti upp sterku Brann liði gegn Mjöndalen, sem situr í næstneðsta sæti B-deildarinnar. Sævar Atli Magnússon var reyndar hvíldur en það dugði engu að síður til 5-1 sigurs.

Freyr stýrði sínum mönnum til öruggs sigurs. Isosport/MB Media/Getty Images

Eggert Aron Guðmundsson lagði fyrstu tvö mörkin upp fyrir Brann. Hið fyrra úr aukaspyrnu sem rataði á Ganverjann Nana Kwame Boakye og hið seinna með sendingu á Mads Hansen sem skaut góðu skoti yfir markmann Mjöndalen.

Heimamenn minnkuðu síðan muninn í 1-2 en fengu á sig þrjú mörk til viðbótar og lokatölur urðu 1-5 fyrir Brann.

KFUM Oslo komst einnig áfram í næstu umferð bikarkeppninnar, með 3-1 sigri á útivelli gegn Kongsvinger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×