Fótbolti

„Þetta mark átti klár­lega að fá að standa“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sverrir Ingi Ingason í baráttunni við Kylian Mbappé.
Sverrir Ingi Ingason í baráttunni við Kylian Mbappé. Vísir/EPA

Sverrir Ingi Ingason lék glimrandi vel í miðri vörn Íslands þegar liðið var grátlega nærri því að ná í sterkt stig á útivelli gegn Frakklandi í undankeppni HM 2026 í París i kvöld. Sverrir Ingi var stoltur af liðsfélögum og svekktur yfir niðurstöðunni úr leiknum. „“

„Það er virkilega svekkjandi að fá ekkert út úr þessum leik þar sem við lögðum virkilega mikið í verkefnið og skorum mark sem er ranglega dæmt af. Við vorum inni í leiknum allan tímann og skorum svo mark sem átti að tryggja okkur verðskuldað stig,“ sagði Sverrir Ingi Ingason, sem spilaði einkar vel í miðjum varnarmúr íslenska liðsins.

„Þetta var bara mark sem Andri Lucas skoraði, það er ekkert flóknara en það. Auðvitað átti það bara að standa, ég held að allir sem horfðu á leikinn hafi séð það og séu sammála okkur með það. Við áttum skilið stig og það er verulega svekkjandi að þetta skuli enda svona,“ sagði miðvörðurinn sterki.

„Þetta var flott liðsframmistaða. Við náðum fínum spilköflum sem urðu til þess að við sköpðuðum færi. Svo vorum við að söffera fyrir framan markið okkar sem er bara eðlilegt á móti jafn sterkri þjóð og Frökkum. Við sýndum góðar framfarir í þessum glugga, erum í góðri stöðu í riðlinum og hlökkum til leikjanna í október. Þar þurfum við að fá fólkið með okkur í að vinna bara Frakkana á heimavelli,“ sagði Sverrir Ingi um stöðuna og framhaldið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×