Leikjavísir

Echoes of the End: Ís­lensk frum­raun undir góðum á­hrifum stríðsguðsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Nota1
Myrkur Games

Echoes of the End er fyrsti leikur íslenska fyrirtækisins Myrkur Games. Þetta er ævintýra- og hasarleikur og þykir nokkuð augljóst að framleiðendur hans fengu mikla andagift frá God of War leikjunum, sem getur varla talist annað en jákvætt.

Leikurinn gerist í ævintýraheimi sem kallast Aema en þessu heimur líkist Íslandi. Söguheimurinn er því bæði einstaklega fallegur og áhugaverður, eins og við förum betur yfir hér neðar.  Hann fjallar um Ryn, sem er ung stríðskona sem fæddist með sjaldgæfa hæfileika til að stjórna fornum göldrum í heimi þar sem mörg ríki berjast um yfirráð yfir rústum gamals heimsveldis.

Echoes of the End kemur út í dag á PC, PS5 og Xbox.

Aldís Amah Hamilton og Karl Ágúst Úlfsson fara með aðalhlutverk leiksins en þau ljá þeim Ryn og Abram Finley raddir sínar og útlit-ish.

Sjá einnig: Átta ára með­göngu loksins að ljúka

Það er ekki hægt að segja annað en að þau standi sig mjög vel í þessum hlutverkum, eins og aðrir sem koma að talsetningu leiksins. Þar vil ég þó sérstaklega nefna þá sem tala fyrir Durtana, sem eru nokkurskonar tröll, og þeir einu sem tala íslensku í Aema.

Ryn og Durtur. Það erru flottustu gaurarnir í Aema.Myrkur Games

Frábær söguheimur

Talandi um Aema. Þá hefur mér þótt söguheimur þessi mjög áhugaverður. Maður fær ekkert allt of miklar upplýsingar um hann en þess vegna er svo gaman að svipta hulunni hægt og rólega af honum, bæði með því að spila gegnum söguna og með því að finna hluti í leiknum sem varpa frekara ljósi á hann. Sem er ekki ósvipað Souls-leikjunum.

Maður finnur kistur víðsvegar í leiknum sem innihalda muni og bréf sem veita manni upplýsingar og maður lærir einnig mikið af samtölum Ryn og Abrams, sem á sér ákveðan fortíð sem varpa þarf ljósi á.

Kisturnar innihalda einnig muni sem gera Ryn öflugri með því að auka líf hennar og getu til galdra.

Ég hef persónulega aldrei verið hlynntur því að fela í borðum leikja hluti sem skipta miklu máli. Eins og hluti sem auka líf aðalpersónunnar eða auka skaða. Það brýtur of mikið upp spilunina og hægir á henni svo maður eyðir leiðinlega miklum tíma í að svipast um í stað þess að skemmta sér.

Þetta er eitthvað sem ég hef tekið eftir að hefur aukist hjá mér með aldrinum. Ég hef mun minni þolinmæði fyrir tímasóun eða svokölluðu „grind“ í leikjum. En, eins og áður segir, þá finnur maður þó áhugaverðar upplýsingar um söguheiminn í þessum kistum, sem hjálpar til.

Það kemur þó nokkrum sinnum fyrir í leiknum að mikið gengur á og manni er gert að drífa sig. Það er gott og blessað, fyrir utan þá staðreynd, að það er búið að þjálfa mann í að kíkja fyrir hvert horn, undir hvern stein, eftir kistum. Þær er nefnilega einnig að finna á þeim hlutum leiksins þar sem manni er sagt að taka sprettinn, því annars gæti heimurinn endað.

Dæmisaga:


„Ryn, það eru allir að deyja! Hjálpum þeim strax!“

„Bíddu, ég þarf að kíkja bakvið þetta tjald hérna og kanna hvort það sé kista þarna.“

Þetta gerir spennuna sem verið er að reyna að skapa algerlega óþarfa. Svo grunar mig að ég hafi misst af einhverjum kistum áður en ég fattaði þetta, sem er pirr.


Augljós áhrif frá Kratos

Kisturnar opna einnig á nánari útskýringu á áhrifum God of War leikjanna á Echoes of the End og þá sérstaklega þeim nýjustu, sem fjalla um stríðsguðinn Kratos og son hans.

Það er nefnilega ansi margt sem Echos of the End og God of War eiga sameiginlegt, eins og kistur sem gera Kratos öflugri og bæta vopn hans og brynjur. Aðalpersónan ferðast líka í báðum leikjum um með annarri persónu, eða fleirum, sem varpa sífellt fram frekari upplýsingum um söguheiminn, samhengi persóna og slíkt, og hjálpa aðalpersónunni einnig í bardögum og við að leysa þrautir í leiknum og komast áfram.

Sjá einnig: Einn af bestu leikjum Miðgarðs

Það finnst mér alls ekki slæmt, enda eru GOW-leikirnir stórkostlegir, og ég er ekki að segja að EOTE sé eitthvað GOW-klón. Þetta er sinn eigin leikur og vel það. Í Echo of the End er íslenskan sem er töluð líka góð og eðlileg, annað en skíta íslenskan sem töluð var í God of War.

Mismunandi óvinir

Bardagakerfi Echo of the End svipar einnig mjög til God of war. Ryn getur bæði beitt sverði og göldrum gegn óvinum sínum, með aðstoð Abrams. Þau þurfa að tækla mismunandi óvini með mismunandi hætti en sumir eru með skildi og svo eru aðrir sem eru risastórir krabbar eða annarskonar skrímsli.

Það tók mig smá tíma að verða ánægður með bardagakerfið. Ryn sveiflar sverðinu oft leiðinlega hægt og það er ekki hægt að stöðva sveiflurnar þegar þær eru byrjaðar, sem stuðaði mig svolítið og leiddi til þess að ég var að éta mikið af höggum sem mér fannst óþarfi. Það þurfti að eiga sér stað ákveðin hugarfarsbreyting hjá mér en mér fannst kerfið skána mjög mikið seinna í leiknum.

Þá eru bæði Ryn og Abram orðin betri og kerfið opnar upp á mun fleiri möguleika.

Myrkur Games

Annars hef svo sem ekkert mikið að setja út á bardagakerfið, fyrir utan þetta ákveðna pet peeve sem ég hef varðandi sverðasveiflur í leikjum og bíómyndum. Það þarf ekki að sveifla þeim eins og hafnarboltakylfum eða ljósastaurum. Ef þú þarft að sveifla sverðinu þínu fyrir aftan bak, þá er eitthvað að því. Þarna er ég samt kominn í smá persónulegt nöldur og þetta á við aragrúa leikja.

Hér að neðan má sjá yfirferð yfir bardagakerfi leiksins frá Myrkur Games.

Frábærar þrautir

Það sem mér hefur líklegast þótt það skemmtilegasta við Echoes of the End eru þrautirnar. Þær eru eiginlega alveg frábærar, fjölbreyttar og krefjandi, þó ég hafi allavega einu sinni verið mjög svo ósáttur við þær.

Oft rekast Ryn og Abram á hlið og annars konar tálma í vegi þeirra sem þau þurfa að leysa. Það þarf oft að gera með aðstoð tímabreytinga og með annarskonar göldrum. Þá þarf Ryn líka oft að hoppa um milli palla sem eiga það til að hverfa undan henni.

Hér tekur við smá kafli sem skrifaður var í hita leiksins, þegar ég var að vera frekar heimskur varðandi eina tiltekna þraut sem reyndist mér erfið. Þetta var mikill tilfinningarússíbani, eins og skín kannski í gegnum textann, og hann var skrifaður í þremur skrefum:


Heilt yfir hef ég haft mjög gaman af þrautunum í þessum leik. Þær eru í fjölbreyttari kantinum og geta verið krefjandi. Sumar eru hins vegar alveg hræðilegar, þar sem maður þarf að ná fjölmörgum skrefum rétt í einni tilraun, annars hendir leikurinn manni tvær mínútur aftur í tímann.

Ég er sérstaklega að hugsa um eina, þar sem maður er látinn eltast við enn eina helvítis kistuna, og ég hata þessa þraut. Þegar þetta er skrifað er ég búinn að verja allt of miklum tíma í hana, án árangurs (augljóslega), og er eiginlega orðinn fjúkandi reiður.

Jæja. Það tókst, bókstaflega í næstu tilraun eftir reiðipistilinn. Fín þraut.


Gallar

Ég hef rekist á slatta af göllum við spilun mína á Echoes of the End. Ég hef meðal annars nokkrum sinnum fest Ryn í steini eða bryggju, svo eitthvað sé nefnt. Hún hefur líka fallið undir kortið og nokkrum sinnum hef ég þurft að fara úr leiknum og inn í hann aftur. Sem er pirrandi, því það er ekki valmöguleiki um að fara aftur til síðustu vistunnar. Maður þarf að fara í aðalvalmyndina og aftur inn í leikinn.

Abram hefur einnig setið fastur í leiknum og einu sinni hvarf hann alveg á stað þar sem ég þurfti aðstoð hans, svo ég þurfti að hlaða leikinn aftur upp.

Hmm, hvaða leik líkist þetta?Myrkur Games

Hann glitchaði reyndar hjá mér í nokkuð löngum kafla leiksins, þar sem hann hreyfðist ekkert nema á milli þess sem leikurinn færði hann, í hálfgerðum myndböndum og vendipunktum. Þegar ég fattaði það, dugði að endurhlaða leikinn til að fá hann í gang aftur.

Hér ber þó að hafa í huga að ég hef verið að spila pre-launch útgáfu af leiknum. Það er þegar búið að gefa út plástra fyrir einhverja af þessum göllum.

Samantekt-ish

Ég er búinn að hafa mjög gaman af Echoes of the End. Söguheimurinn er mjög áhugaverður og það sama á við sögu leiksins, hann lítur vel út og inniheldur mjög skemmtilegar þrautir. Þetta er einfaldlega hinn fínasti leikur og ekki skemmir fyrir að hann er íslenskur í húð og hár.

Mér er ekki alveg búið að takast að klára hann en er langt kominn og hlakka til að halda áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.