Atvinnulíf

Að um­breyta fómó í jómó um verslunar­manna­helgina

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Okkur gæti fundist það ömurlegt að þurfa að vinna um verslunarmannahelgina og missa af öllu. Enda allir og amma þeirra að gera eitthvað skemmtilegt. En hvað með að snúa þessu við: Breyta fómó í jómó og elska einfaldlega að vera ekki að taka þátt í neinu öðru en því sem við gerum með okkur sjálfum. Jafnvel svolítið klikkað og spennandi.
Okkur gæti fundist það ömurlegt að þurfa að vinna um verslunarmannahelgina og missa af öllu. Enda allir og amma þeirra að gera eitthvað skemmtilegt. En hvað með að snúa þessu við: Breyta fómó í jómó og elska einfaldlega að vera ekki að taka þátt í neinu öðru en því sem við gerum með okkur sjálfum. Jafnvel svolítið klikkað og spennandi. Vísir/Getty

Ókei. Það verða auðvitað einhverjir að taka það að sér að halda samfélaginu gangandi um verslunarhelgina. Og VINNA!

Jeminn eini. Annað er víst ekki hægt og akkúrat þessa helgi þar sem allir og amma þeirra eru út um allt að skemmta sér í alls konar um verslunarmannahelgina ert þú á vakt.

Að vinna: Föstudag, laugardag og sunnudag. Jafnvel mánudag.

Í alvöru?!

Síðan ertu í fríi um næstu helgi, akkúrat þegar allir og amma þeirra eru enn að jafna sig og nenna ekki að gera neitt. Að minnsta kosti ekkert merkilegt.

Í alvöru?!

Er nema von að fómó-tilfinningin geri vart við sig. Þessi tilfinning sem er stytting úr ensku „fear of missing out,“ fomo …. Sem við auðvitað íslenskum aðeins og berum fram sem fó-mó. Engan veginn afsakanleg enskusletta samt. En þó: Hugtak sem við erum farin að þekkja.

En hvernig líst þér á að umbreyta fómó í jómó. Sem er önnur óafsakanleg enskusletta og kemur frá „joy of missing out.“ Sem einfaldlega þýðir: Við tökum ákvörðun um að finnast ekki ömurlegt að vera að missa af öllu því skemmtilega sem allir aðrir eru að gera. Heldur einbeitum okkur að því að ELSKA að vera ekki í því kraðaki.

Svolítið klisjukennt en samt: Þess virði að reyna?

Það sem jómó gengur út á er að nýta tímann þar sem við erum ekki að taka þátt í því sem allir aðrir eru að gera: Til hins ýtrasta!

Og elska þessar stundir.

Sem þýðir að það að skipuleggja svolítið hvað við ætlum að gera fyrir utan vinnu um helgina þarf að byggja á einhverju sem við hlökkum til að gera.

Hvernig hljómar til dæmis:

Að hámhorfa á einhverjar myndir og seríur og leyfa okkur að borða fullt af nammi án samviskubits.

Að prófa að gera eitthvað sem við höfum ekki þorað að gera áður: Fara á veitingastað og borða þar ein? Fara í kalda pottinn í sundi? Þykjast vera rosa sportí og mæta í ræktina alla daga?

Eða að gera eitthvað sem gerir okkur stolt og ánægð: Heimsækja ömmu á Hrafnistu þegar enginn annar gerir það þvi enginn annar er heima? Þrífa heima og skipta um á rúminu; fara fersk inn í næstu vinnuviku.

Mála vegg í stofunni?

Vafra á netinu og skipuleggja næsta geggjaða frí?

Búa til bucket-listann okkar: Næstu 10-20 árin?

Dekurstund heima: Maski, vínglas, gúrkur á augun og góð tónlist?

Kíkja á tónleika í bænum og vera svolítið hipp og kúl eftir helgi: Svona 101 Reykjavík fílingur.

Pússla?

Labba um alsber heima?

Hér er um að gera að láta hugarflugið reika og finna eitthvað sem okkur finnst skemmtilegt og jafnvel svolítið klikkað því það eitt og sér getur fengið okkur til að brosa eilítið innra með okkur.

Það sama á við ef við erum föst heima fyrir um helgina vegna þess að makinn okkar þarf að vinna eða eitthvað í gangi hjá öðrum fjölskyldumeðlimi þannig að ekkert okkar er að fara neitt. Umbreytum fómó í jómó og sjáum hvaða skemmtilega helgi kemur út úr því.


Tengdar fréttir

Fómó í vinnunni er staðreynd

Fómó er nýtt hugtak sem sérstaklega ungt fólk notar en þetta orð er tilvísun í skammstöfun á ensku; Fomo, sem stendur fyrir „fear of missing out.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×