Fótbolti

Brotist inn hjá Platini og verð­launin hurfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Platini átti magnaðan feril og vann til fjölda verðlauna.
Michel Platini átti magnaðan feril og vann til fjölda verðlauna. Getty/Ernesto Ruscio

Franska goðsögnin Michel Platini missti fullt af verðlaunum frá farsælum fótboltaferli sínum eftir að óprúttinn aðili braust inn hjá honum.

Platini varð var við hávaða á heimili sínu í föstudagsmorguninn. Hann vaknaði við hávaðann og sá síðan manneskju með svarta hettu vera að sniglast fyrir utan húsið.

Sá aðili yfirgaf svæðið en þegar Platini fór að skoða betur heimilið komst hann betur af því hvað var þarna í gangi.

Það var nefnilega búið að stela tuttugu verðlaunapeningum frá ferli Platini og það vantaði líka aðra verðlaunagripi frá glæstum ferli hans.

Platini geymdi verðlaunin sín í sérstöku úthýsi við hlið heimilisins.

Franska lögreglan hefur hafið rannsókn á málinu og ekki víst hvort að verðlaunin komi aftur í leitirnar.

Platini var einn allra besti fótboltamaður heims á níunda áratugnum og fékk meðal annars Gullknöttinn þrjú ár í röð frá 1983 til 1985.

Hann skoraði níu mörk í fimm leikjum í úrslitakeppni EM 1984 þegar Frakkar urðu Evrópumeistarar í fyrsta sinn. Platini varð einnig ítalskur meistari með Juventus tvisar sinnum og náði því að vera þrisvar sinnum markakóngur ítölsku Seríu A þrátt fyrir að spila sem miðjumaður.

Platini var í mars síðastliðnum sýknaður í mútumáli sínu sem kostaði hann á sínum tíma forsetastólinn í UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×