Fótbolti

Fékk rautt spjald fyrir ári síðan og má ekki spila í kvöld

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Irene Paredes tók einn leik út í banni, spilaði svo heila Þjóðadeildarkeppni, og tekur seinni leik bannsins út í kvöld.
Irene Paredes tók einn leik út í banni, spilaði svo heila Þjóðadeildarkeppni, og tekur seinni leik bannsins út í kvöld. Manuel Queimadelos/Quality Sport Images/Getty Images

Irene Paredes verður í leikbanni þegar Spánn mætir Portúgal á Evrópumóti kvenna í fótbolta í kvöld, vegna rauðs spjalds sem hún fékk fyrir ári síðan.

Paredes fékk beint rautt spjald fyrir groddaralega tæklingu í næstsíðasta leik Spánar í undankeppni Evrópumótsins á móti Tékklandi, þann 12. júlí 2024. Aganefnd UEFA tók tæklinguna fyrir og dæmdi Paredes í tveggja leikja bann fyrir hættusama hegðun.

Samkvæmt reglum UEFA færast leikbönn ekki milli keppna. Paredes afplánaði því tveggja leikja bannið í lokaleik undankeppninnar gegn Belgíu og síðan í leik kvöldsins gegn Portúgal. Þrátt fyrir að hafa þess á milli spilað heila Þjóðadeildarkeppni á vegum UEFA.

Spánn er ríkjandi heimsmeistari og sigurstranglegasta lið Evrópumótsins. Marc Atkins/Getty Images

Paredes verður saknað enda lykilleikmaður í spænska landsliðinu og hluti af hópnum sem varð heimsmeistari á mótinu í Nýja-Sjálandi árið 2023.

Hún á yfir hundrað landsleiki að baki og er ein af fimm fyrirliðum spænska landsliðsins.

Nýr liðsfélagi hennar hjá Barcelona, Laia Aleixandri, eða erkifjandi hennar í Real Madrid, Maria Mendez, munu væntanlega taka hennar stað í miðverðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×