Fótbolti

Dramatík í endurkomusigri Norð­manna í hinum leik ís­lenska riðilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ada Hegerberg fagnar marki sínu fyrir norska landsliðið en það var hennar fimmtugasta fyrir norska liðið.
Ada Hegerberg fagnar marki sínu fyrir norska landsliðið en það var hennar fimmtugasta fyrir norska liðið. Getty/Matthias Hangst

Noregur er á toppi íslenska riðilsins eftir 2-1 endurkomusigur á Sviss í hinum leiknum á Evrópumótinu í fótbolta í Sviss í kvöld.

Norðmenn komust upp fyrir Finna á fleiri mörkum skoruðum en Finnar unnu 1-0 sigur á Íslandi fyrr í kvöld.

Heimakonur í Sviss komust þó yfir á 28. mínútu með marki Nadine Riesen og þær voru 1-0 yfir í hálfleik.

Þær norsku byrjuðu seinni hálfleikinn hins vegar af miklum krafti og skoruðu tvö mörk með fjögurra mínútna millibili snemma í honum.

Það fyrra skoraði Ada Hegerberg á 54. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Vilde Böe Risa en það seinna var klaufalegt sjálfsmark hjá hinni svissnesku Juliu Stierli.

Hegerberg fékk tækifæri til að koma Noregi tveimur mörkum yfir á 70 .mínútu en skaut þá framhjá úr vítaspyrnu.

Aðeins nokkrum sekúndum síðar þá fengu Svisslendingar ódýra vítaspyrnu. Þar kom Varsjáin dómaranum til bjargar með því að finna rangstöðu í aðdragandanum. Ekkert varð því af þeirri vítaspyrnu.

Svisslendingar reyndu að sækja jöfnunarmark en tókst ekki. Tvö stigalaus lið, Ísland og Sviss, mætast því í næsta leik. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×