Atvinnulíf

Banka­stjóri Ís­lands­banka: Syngur há­stöfum fjöl­skyldunni til hryllings

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Jón Guðni Ómarsson bankastjóri Íslandsbanka og tíkin Emma. Jón Guðni leggur áherslu á að reyna að ná átta tíma svefni og til þess að ná að sofna fljótt og vel reynir hann að hugsa alltaf um sama hlutinn: Síðasta golf-hring og hann sofnar um leið.
Jón Guðni Ómarsson bankastjóri Íslandsbanka og tíkin Emma. Jón Guðni leggur áherslu á að reyna að ná átta tíma svefni og til þess að ná að sofna fljótt og vel reynir hann að hugsa alltaf um sama hlutinn: Síðasta golf-hring og hann sofnar um leið. Vísir/Anton Brink

Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, er ekki góður söngvari. Að minnsta kosti hryllir fjölskyldunni við þegar hann fær lag á heilann og syngur það hástöfum. Blessunarlega erfðu börnin ekki þennan skort á sönghæfileikunum.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana og hvað er það fyrsta sem það gerir þá. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég vakna yfirleitt eins og klukka klukkan 7:30 og hef gert það svo lengi sem ég man eftir. Oftast sprækur eftir átta tíma svefn.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ég hef ekki vanist ennþá að drekka kaffi en byrja á að kveikja á kaffivélinni fyrir konuna og hrista í grænan heilsusafa fyrir okkur hjónin. Unglingarnir sjá um sig sjálfir, en hundurinn okkar hún Emma fær smá þjónustu og klapp.“

Hvernig lýsir það sér hjá þér þegar þú færð lag á „heilann?“

Þá syng ég það hástöfum fyrir fjölskylduna, þeim til mikils hryllings. 

Ég er fullkomlega laus við alla listræna hæfileika en hef svosem ekki látið það stoppa mig í að spreyta mig fyrir framan þau. 

Börnin okkar eru hins vegar miklir móður- og föður betrungar og búa yfir hæfileikum í dans og söng.“



Jón Guðni stefnir að því að hitta fjárfesta og viðskiptavini í maí en almennt segir hann það stöðuga áskorun að skipuleggja sig betur; Bókaður frá morgni til kvölds flesta daga. Oftar en ekki fara kvöldin því í að lesa tölvupósta og ýmsan vinnutengdan fróðleik.Vísir/Anton Brink

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Starfið er gríðarlega fjölbreytt og dagarnir mjög ólíkir hver öðrum. Ég er nýkominn heim af sjávarútvegssýningunni í Barcelona þar sem við hittum mikinn fjölda af bæði innlendum og erlendum viðskiptavinum. 

Það stendur líka yfir mikil vinna þessa dagana við undirbúning á sölu ríkisins á hlut í bankanum og verður virkilega spennandi að halda áfram að kynna bankann fyrir bæði fjárfestum og almenningi. 

Þetta ár hefur verið mikið sóknarár hjá okkur í bankanum og við innleiddum nýja stefnu í upphafi árs sem við höfum verið að innleiða. Slíku ferli fylgir mikil stemning þegar við erum að fylgja úr hlaði mikið af nýjum verkefnum.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

Það er stöðug áskorun að skipuleggja sig betur. Ég er bókaður frá morgni til kvölds flesta daga og þarf því oft að liggja yfir tölvupóstum og að lesa ýmislegt til fróðleiks á kvöldin. 

Oft eru ákveðnar áherslur fyrir einstaka vikur, til að mynda var mikil áhersla á stefnumótun í janúar á meðan maí verður nýttur meira í að hitta fjárfesta og viðskiptavini.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég reyni að sofna klukkan hálf tólf til að ná mínum átta tíma svefni. Reyni oft að lesa eitthvað gáfulegt, en við hjónin freistumst ansi oft til að horfa á eitthvað léttmeti í spjaldtölvunni. 

Er ansi góður að stilla mig af og hugsa alltaf um sama hlutinn þegar ég leggst á koddann og sofna því yfirleitt á tveimur mínútum. Það svínvirkar oftast að hugsa um síðasta golfhring – þá sofna ég fljótt.“


Tengdar fréttir

„Var með skipt í miðju og notaði óhóflegt magn af geli“

Ólafur Karl Sigurðsson, aðstoðarforstjóri KAPP og framkvæmdastjóri KAPP Skagans ehf, hefur aldrei þroskast í að drekka kaffi, en drekkur hins vegar það sem hann kallar unglingakaffi. Ólafur segir eiginkonuna eiga heiðurinn af því hversu vel gengur heima fyrir.

Hressilega kaótískir morgnar sem eiga það til að klikka smá

Eva Þorsteinsdóttir, partner og Senior Account Manager hjá Sahara auglýsingastofu, sefur eins lengi og hún kemst upp með á morgnana. Þegar hún síðan fer loksins fram úr reynir hún að múltítaska eins og vindurinn, með tilheyrandi alls konar.

Elskar kaffi að ítölskum sið og línulega dagskrá

Sólveig Ása Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri stuðningsfélagsins Krafts, kemst ekki í gang fyrr en hún er búin með fyrsta kaffibollann á morgnana. Og fer þá líka alla leið; fær sér kaffi að ítölskum sið með flóaðri mjólk. Sólveig viðurkennir að elska línulega dagskrá á RÚV.

Hundurinn tannlaus og unglingarnir vaktir með diskaglamri

Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri indó, viðurkennir að hann getur uppátækjasamur grallari þegar hann á lausa stund. Ekki síst í vinnunni þar sem honum finnst greinilega gaman að stríða samstarfsfólki sínu.

„Væri samt mjög til í að vera betri söngvari“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir lagið Blindsker alltaf koma sér í ákveðinn gír. Enda búinn að syngja með laginu frá því að hann var unglingur. Bogi átti mjög svo stuttan feril sem hljómsveitargaur og viðurkennir að hann væri alveg til í að vera betri söngvari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×