Lífið

Verð­miðinn hækkar á höll Antons

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Hús Antons á Arnarnesinu er óklárað.
Hús Antons á Arnarnesinu er óklárað. Remax/Vísir/Vilhelm

Verðmiðinn á einbýlishúsi við Haukanes 24 í Garðabæ heldur áfram að hækka. Um er að ræða glæsilegt hús sem enn er í byggingu og í eigu Antons Kristins Þórarinssonar. Ásett verð eignarinnar er 625 milljónir króna, en fasteignamat hennar er 407,4 milljónir. Þegar eignin var fyrst auglýst til sölu í janúar í fyrra var ásett verð 590 milljónir. 

Anton Kristinn keypti hús á lóðinni við Haukanes árið 2020 fyrir 120 milljónir króna og lét rífa það til að byggja nýtt. Bygging á nýja húsinu hefur staðið yfir síðastliðin ár. Húsið er hannað af arkitektinum Kristni Ragnarssyni hjá KRark og verður afhent í núverandi byggingarstigi, en samkvæmt lýsingu á fasteignavef Vísis er möguleiki á að láta klára það frekar að ósk kaupenda.

Anton Kristinn var á sínum tíma á meðal sakborninga í svokölluðu Rauðagerðismáli, en var ekki meðal þeirra sem ákærðir voru. Hann hlaut hins vegar dóm árið 2021 fyrir vopna- og fíkniefnalagabrot.

Eignin er alls 621 fermetri á tveimur hæðum og stendur á 1.467 fermetra eignarlóð við sjóinn. Á efri hæð hússins er m.a. að finna bílskúr, fataherbergi, hjónasvítu, sjónvarpshol og stóra skrifstofu. Á neðri hæð eru tvö svefnherbergi, stór geymsla, rúmgott afþreyingarrými, tæknirými og rými sem eru hugsuð sem kvikmynda- og leikherbergi.

Útgengt er frá neðri hæð út á lóðina og niður í fjöru, þar sem samkvæmt seljanda er heimilt að setja bátaskýli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.