Fótbolti

Ancelotti: Mbappé er ekki ofbeldisfullur en þetta var aug­ljóst rautt spjald

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kylian Mbappé gekk skömmustulegur af velli eftir að hafa fengið fyrsta rauða spjaldið í búningi Real Madrid. Hann gæti misst af úrslitaleik spænska bikarsins.
Kylian Mbappé gekk skömmustulegur af velli eftir að hafa fengið fyrsta rauða spjaldið í búningi Real Madrid. Hann gæti misst af úrslitaleik spænska bikarsins. Juan Manuel Serrano Arce/Getty Images

Kylian Mbappé fékk beint rautt spjald fyrir groddaralega tæklingu fyrr í dag. Davide Ancelotti, aðalþjálfari Real Madrid í fjarveru föður síns Carlo, segir Mbappé ekki ofbeldisfullan að eðlisfari, hann hafi brugðist illa við brotum en átt skilið rautt spjald.

„Ég hef ekki talað við hann um þetta en Kylian er ekki ofbeldisfullur að eðlisfari, hann baðst strax afsökunar og veit upp á sig sökina“ sagði Ancelotti um tæklinguna sem má sjá í myndskeiðinu hér fyrir neðan.

Mbappé sökkti tökkum í ökkla Antonios Blanco, fékk fyrst gult spjald en þeirri ákvörðun var snúið í rautt af myndbandsdómaranum.

“Þetta er augljóst rautt spjald og hann mun sætta sig við afleiðingarnar. Hann brást illa við eftir að það var brotið oft á honum, þess vegna brást hann svona við. Sem réttlætir þetta auðvitað ekki, en það er það sem gerðist” sagði Ancelotti einnig.

Mbappé fékk nokkrar byltur fyrr í leiknum og brást illa við. Juan Manuel Serrano Arce/Getty Images

Óvíst er hversu langt bann Mbappé fær en alla jafnan gefur spænska knattspyrnusambandið eins til þriggja leikja bann fyrir beint rautt spjald.

Bannið gildir bæði í deild og bikar, sem þýðir að Mbappé myndi missa af úrslitaleiknum gegn Barcelona ef hann fær þriggja leikja bann.

Hann verður hins vegar ekki í banni þegar Real Madrid tekur á móti Arsenal í seinni leik liðanna í Meistaradeildinni. Madrídingar þurfa að vinna upp þriggja marka forystu á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×