Fótbolti

Dæmd í bann fyrir að klípa í klof

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mapi León var dæmd í bann fyrir að klípa í klof andstæðings.
Mapi León var dæmd í bann fyrir að klípa í klof andstæðings. Dennis Agyeman/Europa Press via Getty Images

Mapi León, varnarmaður Barcelona, var dæmd í tveggja leikja bann fyrir að snerta andstæðing á óviðeigandi hátt í leik gegn Espanyol í febrúar.

Atvikið átti sér stað á fimmtándu mínútu nágrannaslagsins. León og Daniela Caracas áttu í orðaskiptum sem enduðu með því að Leon kleip í klof Caracas, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Leikurinn fór fram í febrúar og málið hefur verið á borði aganefndar spænska knattspyrnusambandsins, þar til úrskurðað var um tveggja leikja bann í gær. Mapi León mun missa af deildarleikjum gegn Atlético Madrid og Sevilla.

Barcelona áfrýjaði banninu en var hafnað, félagið hefur hótað því að fara með málið fyrir alþjóðaíþróttadómstólinn. León sendi sjálf frá sér yfirlýsingu fljótlega eftir leikinn þar sem hún hafnaði því alfarið að hafa snert Caracas á óviðeigandi hátt og hótaði að lögsækja aðila sem héldu öðru fram.

Espanyol sagði Caracas hafa orðið fyrir miklu áreiti á samfélagsmiðlum eftir atvikið en hún nyti fulls stuðnings félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×