Sigurinn var afar öruggur hjá Piastri, sem kom fimmtán sekúndum á undan næsta manni yfir marklínuna þrátt fyrir að hafa misst sjö sekúndna forystu fyrr í kappakstrinum.
Liðsfélagi hans Lando Norris stóð sig illa í tímatökunni í gær og ræsti sjötti en keyrði vel í dag og tryggði sér þriðja sætið á síðasta hringnum. Hann gæti líka enn unnið sig upp í annað sætið þar sem George Russell er til rannsóknar fyrir brot á DRS reglum.
Lewis Hamilton var valinn ökumaður dagsins eftir að hafa unnið sig upp úr níunda sæti í fimmta sætið, þrátt fyrir bilanir í bílnum á leiðinni. Liðsfélagi hans hjá Ferrari, Charles LeClerc, stóð sig ekki eins vel og féll úr öðru sæti í það fjórða.
Ríkjandi heimsmeistarinn Max Verstappen var í vandræðum framan af en tókst á lokahringjunum að taka fram úr Pierre Gasly hjá Alpine og enda í sjötta sæti. Liðsfélagi hans hjá Red Bull, Yuki Tsunoda, skoraði sín fyrstu stig á tímabilinu þegar hann kom níundi í mark.